Gengi hlutabréfa bandarísku verslunarkeðjunnar Foot Locker hefur lækkað um 26,5% það sem af er degi. Lækkunin kemur í kjölfarið á því að fyrirtækið birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung. Félagið hagnaðist um 51 milljón dollara á ársfjórðungnum og dróst hagnaður saman um 59% frá sama tímabili í fyrra.

Sala fyrirtækisins dróst saman um 6%. Er þetta í fyrsta skipti í 7 ár sem sala Foot Locker dregst saman. Samkvæmt yfirlýsingu frá félaginu voru vandræði tímabilsins falin í því að lítið framboð var af skóm sem reyndust mjög vinsælir.

Hagnaður á hlut nam 62 sentum sem var langt undir væntingum greiningaraðila sem höfðu gert ráð fyrir 90 sentum á hlut samkvæmt Bloomberg . Gengi hlutabréfa Foot Locker stendur nú í 35,2 dollurum á hlut og hefur lækkað um rúmlega 50% það sem af er þessu ári.