Bílaframleiðandinn Ford hefur hafið framleiðslu á rafknúnum F-150 pallbílnum, sem hefur um áratugaskeið verið söluhæsti bíll Bandaríkjanna. Vonast er til þess að þetta skref Ford verði til þess að auka vinsældir rafbíla í Bandaríkjunum, en íbúar landsins hafa hingað til margir hverjir verið tregir til að kaupa rafmagnsbíla. BBC greinir frá, en í samtali við miðilinn segir Jim Farley, forstjóri Ford, að með þessu sé bílaframleiðandinn að taka talsverða áhættu.

Þó að rafbílavæðingin hér á landi hafi gengið nokkuð hratt fyrir sig verður það sama ekki sagt um þróunina á heimsvísu. Á bifreiðamarkaði á heimsvísu á síðasta ári stóðu rafbílar aðeins undir 9% heildarsölunnar.

Í Bandaríkjunum, sem losar næst mest kolefni á heimsvísu á eftir Kína, gekk rafbílavæðingin enn hægar. Aðeins 4,5% seldra bifreiða vestanhafs á síðasta ári voru rafbílar. Að sögn greinenda er það einmitt lykilhlekkur í að sannfæra bandarískan almenning um ágæti rafbíla að setja á markað rafútgáfu af vinsælum bílategundum sem hafa unnið hug og hjörtu þjóðarinnar.