Gjaldeyrisútboð Seðlabanka Íslands og peningaþvætti voru til umræðu á Alþingi í gær og spurði Þórhildur Sunna, þingmaður Pírata, forsætisráðherra hvort ekki væri tilefni til þess að Alþingi skipaði rannsóknarnefnd til þess að fara ofan í kjölinn á fjár­fest­ing­ar­leiðinni svokölluðu, sem hér var við lýði á gjaldeyrishaftaárunum.

Gjaldeyrisútboð SÍ og möguleg tengsl þeirra við peningaþvætti komu til umræðu í þættinum Silfrið á RÚV síðastliðinn sunnudag. Það vakti athygli þegar ritstjóri Kjarnans, Þórður Snær Júlíusson, lét þau ummæli falla í þættinum að fjár­fest­ing­ar­leið Seðlabanka Íslands hefði verið ein skýr­asta op­in­bera peningaþvættisleið sem nokk­urn tím­ann hafi verið fram­kvæmd.

Mbl.is fjallar um málið í gær og segir forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttir, hafa í svari við fyrirspurn Þórhildar bent á að Seðlabank­inn hefði sjálf­ur gefið út skýrslu um málið sem ekki hefði verið tek­in fyr­ir á Alþingi, en slíkt ætti að sjálf­sögðu að gera, t.d. hjá efna­hags- og viðskipta­nefnd eða stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd. Ekki væri rétt að fjármun­ir hafi streymt hingað til lands eft­ir­lits­laust, enda hafi Fjár­mála­eft­ir­litið sinnt eft­ir­lits­hlut­verki vegna fjár­fest­ing­ar­leiðar­inn­ar.

Spurði Þór­hild­ur Sunna þá hvort ekki væri til­efni til þess að Alþingi léti rann­saka þá stofn­un sem rann­sakaði sjálfa sig.

Í svari sínu sagði Katrín það eðli­legt að viðeig­andi nefnd­ir Alþing­is byrjuðu á að taka skýrslu Seðlabank­ans fyr­ir og at­huga hvort þar væri spurn­ing­um ósvarað.

Ummæli Þórðar í Silfrinu voru borin undir Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra í gær og sagði hann í samtali við mbl.is að ósmekklegt væri að segja að þetta hafi verið opinber peningaþvættisleið, eins og sérstaklega hafi verið hvatt til þess. „En ég tek öll­um ábend­ing­um af al­vöru ef að ekki hef­ur verið nægi­lega gætt að aðhaldi eða eft­ir­liti meðal ann­ars um upp­runa fjár,“ sagði Bjarni Ben.