Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hafa komið sér saman um þingrof og kjördag sem verði 28. október næstkomandi.

Guðni segist hafa rætt við formenn allra flokkanna sem eiga sæti á Alþingi um hvort hægt væri að mynda nýja ríkisstjórn en þar hafi komið fram að slíkt væri ekki hægt. Eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá hefur Birgitta Jónsdóttir viljað freista þess að mynda minnihlutastjórn.

Guðni segir þó að ekki þurfi að rjúfa þing strax þó þingrofið hafi verið samþykkt, og gæti þingið í raun starfað fram að kosningum að því er RÚV greinir frá. Guðni hvatti fólk til að nýta atkvæðaréttinn þrátt fyrir fjölda kosninga undanfarið. „Við getum skipt um ríkisstjórnir en við getum ekki skipt um kjósendur,“ sagði Guðni en hann sagði það þingmanna að ákveða hve lengi þingið starfi. „Valdið er þingmanna.“