Gary Jackson hefur látið af störfum sem forstjóri Tempo ehf., en hann var ráðinn í starfið í apríl á síðasta ári, eða fyrir um níu mánuðum síðan, og hefur Chris Porch verið ráðinn tímabundið í hans stað.

Chris Porch hefur verið stjórnarmaður í félaginu chipper, en á hann var rekstrarstjóri félagsins Rabbet í Austin í Texas milli desember 2018 til júní 2019. Þar áður frá mars 2016 starfaði hann fyrir Vast.com, en hann var samhliða stjórnarmaður í félaginu Conceivable milli október 2013 og apríl 2017.

Einnig starfaði hann fyrir Thinktiv í Austin í Teas, en árin 2008 til 2011 var hann forstjóri og rekstrarstjóri TrueCar og þar áður milli 2003 til 2006 forstjóri BetweenMarkets. Loks var hann meðstofnandi og aðstoðarframkvæmdastjóri í félaginu Trilogy sem stofnað var 1989. Chris Porch lærði í Stanford á árunum 1986 til 1990.

Seldu helminginn fyrir ríflega 4 milljarða

Tempo er hlutdeildarfélag í 45% eigu Origo og 55% í eigu Diversis Capital, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í nóvember 2018 seldi Origo eignarhlutinn til Diversis fyrir 4,3 milljarða króna.

Chris hefur áratugareynslu af rekstri hugbúnaðarfyrirtækja, sem stofnandi, stjórnandi og stjórnarformaður. Hann hefur að undanförnu starfað sem stjórnendatengiliður (operating partner) Diversis Capital hjá Tempo, þar sem hann hefur stutt við stjórnendateymið í stefnumótun og áætlunargerð.

Gert er ráð fyrir að nýr forstjóri Tempo verði ráðinn eins fljótt og auðið er en þangað til mun Chris vinna með stjórnendateymi félagsins að áframhaldandi  vexti Tempo.

Finnur Oddsson, forstjóri Origo
Finnur Oddsson, forstjóri Origo
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Finnur Oddsson , forstjóri Origo segir:

„Breytingar á forystu Tempo er liður í að stilla betur saman áherslur stjórnar og stjórnenda og byggja um leið sterkt leiðtogateymi til framtíðar. Rekstur Tempo gekk vel á síðasta ári, tekjuvöxtur og afkoma voru umfram væntingar og horfur eru mjög góðar.“

Tempo sinnir  þróun lausna fyrir verkefnastýringu og tímaskráningu og þjónar nú 13 þúsund viðskiptavinum í yfir 120 löndum.  Hjá fyrirtækinu starfa um 130 sérfræðingar, á Íslandi, í Kanada og í Bandaríkjunum, meðan Origo er er samstæða fyrirtækja í upplýsingatækni.

Origo er þjónustufyrirtæki og hlutverk þess felst í að aðstoða viðskiptavini að ná enn betri árangri í sínum rekstri með aðstoð upplýsingatækni, sérfræðiþekkingu starfsfólks og lipurri þjónustu. Hjá samstæðunni starfa um 550 manns. Dótturfélög Origo eru Sense ehf. og Applicon AB.