Stjórn Wizz Air hefur ákveðið að veita forstjóranum Jozsef Varadi 100 milljóna punda bónus, jafnvirði 12,4 milljörðum króna, ef hann nær að stækka flugfélagið verulega í kjölfar faraldursins. Til þess að innleysa allan bónusinn þarf hlutabréfaverð flugfélagsins að hækka um 150% á næstu fimm árum, eða um 20% á hverju ári.

Verði kaupaukinn samþykktur af hluthöfum á aðalfundi seinna í mánuðinum mun Varadi vera með hærri laun en nær allir kollegar hans í evrópska fluggeiranum, þar á meðal Michael O‘Leary, forstjóra Ryanair. Í bréfi sem stjórnarformaður Wizz sendi hluthöfum fyrir aðalfundinn sagði hann launapakkann nauðsynlegan til að tryggja að Varadi myndi leiða félagið áfram.

Stjórn Wizz var kunnugt um þrjú atvinnutilboð sem Varadi hafði borist, samkvæmt heimildarmanni Financial Times . Varadi er meðal þeirra sem stofnaði félagið árið 2003 og hefur síðan þá gert Wizz að einu stærsta flugfélagi á evrópska markaðnum með lágkostnaðar viðskiptamódeli sínu.

Starfssamningur Varadi við Wizz rann út í lok síðasta árs en var framlengdur á meðan stjórn félagsins undirbjó samningstilboð sitt. Hann tók á sig launalækkun á síðasta ári en mun engu að síður fá rúmlega tvær milljónir punda, jafnvirði 336 milljónum króna, í laun í ár.