Fjármálaeftirlitið birti í dag tilkynningu um kaup Vilhelms Más Þorsteinssonar, forstjóra Eimskip og fruminnherja, á rúmlega 66 þúsund hlutum í Eimskip á genginu 189,25 sem jafngildir 12,5 milljónum króna.  Hlutbréf Eimskips hafa hækkað um 1,6% það sem af er degi í viðskiptum fyrir tæpar 26 milljónir króna. Verð hlutabréfa Eimskip hefur lækkað töluvert síðastliðinn mánuð eða um 9,2% og síðastliðna 12 mánuði nemur lækkunin um 15%.

Vilhelm Már tók við starfi forstjóra Eimskips þann 24. Janúar sl. en hann hafði verið framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfestingasviðs Íslandsbanka undanfarin ár.

Afkoma Eimskips var undir væntingum á síðasta ári en hagnaður félagsins dróst saman um meira en helming frá árinu 2017 og tap var á rekstrinum á síðasta ársfjórðungi síðasta árs. Nokkur tekjuaukning var á síðasta ári en minnkandi framlegð, hærri kostnaður og afskriftir drógu afkomu félagsins niður milli ára.