Kristalina Georgieva, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), hefur verið sökuð um að hafa blásið upp einkunn Kína í árlegum skýrslum Alþjóðabankans, stofnuninni sem hún stýrði árin 2017-2019. Financial Times greinir frá.

Þetta eru niðurstöður rannsóknar hjá Alþjóðabankanum sem hefur nú ákveðið að hætta útgáfu Doing Business skýrslnanna vegna áhyggja yfir framferði núverandi og fyrrum starfsmanna sem hafa komið að skýrslunum. Í tilkynningu Alþjóðabankans segir nauðsynlegt að rannsóknir stofnunarinnar beri traust alþjóðasamfélagsins.

Rannsókn Alþjóðabankans leiddi í ljós að einkunn Kína í Doing Business skýrslunni fyrir árið 2018 hafi batnað verulega við breytingar rétt fyrir útgáfu. Georgieva er sökuð um að hafa beitt sér fyrir því að bæta stöðu Kína í skýrslunni á sama tíma og hún var „niðursokkin“ í herferð til að tryggja fjármögnun fyrir Alþjóðabankann.

Lögfræðifyrirtækið WilmarHale, sem framkvæmdi rannsóknina, segir að stuttu fyrir útgáfuna hafi verið reynt að fegra einkunn Kína í skýrslunni með því að taka gögn fyrir Hong Kong inn í útreikningana. Þegar þessar tilraunir misheppnuðust þá hafi Georgieva blandað sér inn í málin.

Þá kemur fram að háttsettir kínverskir embættismenn hafi „hvað eftir annað lýst yfir áhyggjum sínum“ til forseta og annarra stjórnenda Alþjóðabankans að einkunn þjóðarinnar hafi „ekki endurspeglað efnahagslegu umbætur hennar“.

Í yfirlýsingu sem AGS sendi frá sér hafnar Georgieva ásökununum og kveðst ósammála niðurstöðum rannsóknarinnar í grundvallaratriðum.

Rannsóknin gefur einnig til kynna frávik í undirbúningi fyrir Doing Business skýrslunni fyrir árið 2020 sem gerði það að verkum að Sádi Arabía komst í efsta sætið á listanum yfir mestu framfarir, fram yfir Jórdaníu.