Sigríður Andersen fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins segir skandalinn, ef svo megi kalla, í bankasölumálinu vera þann að ráðamenn hafi ekki svarað fyrir málið strax heldur látið það „súrna í mánuð“ eins og hún kemst að orði. Ummælin lét hún falla í Silfrinu á RÚV í gær og ítrekaði síðan um kvöldið í bloggfærslu .

„það fannst mér galli að fjármálaráðherra, aðrir ráðherrar og þingmenn kusu einhvernveginn að svara ekki fyrir þetta mál strax, heldur fóru í páskafrí og létu málið súrna í mánuð. Því miður notaði ekkert af þessu fólki, eða fáir og að minnsta kosti ekki þingmenn miðað við nefndarfundina sem ég horfði á, páskana vel í að kynna sér málið eins og þau hefðu getað gert. Þetta fannst mér galli og málið auðvitað súrnar eftir því sem fram líða stundir.“

Í kjölfarið snéri Sigríður sér að stjórnarandstöðunni og vandaði henni ekki síður kveðjurnar: „Þetta var algerlega óboðlegt gagnvart almenningi þessi fundur. Framkoma þingmanna var óupplýsandi því miður. Það leyndust þarna mjög góðar spurningar sem maður gat reynt að greina hjá einhverjum fyrirspyrjendum, en geðshræringin var svo mikil að upplýsingagildið fyrir almenning tapaðist.“

Þessu til viðbótar væri hluti vandans sá að misskilningur ríki um hugtök og annað í tengslum við söluna sem ekki hafi tekist að útskýra nægjanlega vel. „Ég hvet hinsvegar almenning til að horfa á þessa fundi vegna þess að mér finnst bæði fjármálaráðherra og Bankasýslan svara mjög vel fyrir sig.“

Ítrekaði og útlistaði nánar í bloggfærslu
Sigríður ítrekaði ummæli sín um skort á upplýsingagjöf af hálfu ríkisstjórnarinnar, auk gagnrýninnar á stjórnarandstöðuna í bloggfærslu í gærkvöldi.

„Kannski má þó greina eitt klúður í eftirleiknum. Það að ráðherrar allir, þingmenn og embættismenn hafi ekki strax leiðrétt rangfærslur í fjölmiðlum og svarað gagnrýni. Eftir meira en mánuð mættu þingmenn svo í fjárlaganefnd alveg jafn ólesnir og þeir segjast hafa verið fyrir söluna.

Því til viðbótar útlistaði hún misskilninginn auk þess nánar. „Hæfum fjárfestum“ er ruglað saman við „kjölfestufjárfesta“, kaupendur ranglega sagðir hafa verið „valdir“ og markmiðið um dreift eignarhald og um leið hæsta verð gert tortryggilegt án þess þó að nokkur þeirra sem mest hafa gagnrýnt söluna hafi bent á hvert annað markmiðið hefði átt að vera.“

Þá sem fyrir svörum sátu lofaði hún hinsvegar í hástert. „Gestir fundanna, fulltrúar bankasýslu og fjármálaráðherra, báru þá fundi uppi með skilmerkilegum svörum og jafnvel útskýringum á flóknum þáttum þessa máls á mannamáli. Það hefði mögulega mátt forða þingmönnum frá skammarlegri hegðun hefðu þessar skýringar bara verið settar fram á fyrsta degi umræðunnar.

„Hér eru allir í sama mötuneytinu“
Guðmundur Gunnarsson fréttastjóri Markaðarins og oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi fyrir síðustu þingkosningar, virtist að flestu leyti líta málið öðrum augum en Sigríður, en gagnrýndi þó einnig harkalega upplýsingagjöf ráðamanna og viðbrögð þeirra eftir að umræðan fór af stað.

„Þó að Bankasýslan hafi gert það sem hún sagðist ætla að gera þá var upplýsingaskyldan ekki næg, almenningur var ekki með, fólk vissi ekki hvað sýslan var að sýsla og það er mjög alvarlegt. En viðbrögðin eftirá, hjá þeim sem bera ábyrgðina; ég átta mig ekki alveg á því þegar ráðherrar landsins koma fram með þessum hætti og tala til allra í málinu af hroka og yfirlæti. Ég skil ekki alveg þá hugmyndafræði.“

Þá sagðist hann telja umræðuna farna að missa sjónar á aðalatriðunum. „Stóra myndin er að þetta er massíft klúður. Það hafa eiginlega allir viðurkennt að það hefði þurft að standa betur að þessu.“

Öllu verra væri þó „fúskið“, sem fælist í því að meint tíðrædd „armslengd“ milli pólitísks ráðherra og faglegrar Bankasýslu hafi einfaldlega aldrei verið til staðar. „Það getur vel verið að það sé góður ásetningur. [..] Hér nudda allir öxlunum saman, hér eru allir í sama mötuneytinu. Við þekkjumst alltof vel og við erum alltof meðvirk hvort með öðru og með því þegar vinnubrögð þeirra sem við treystum fyrir lyklunum eru ekki nógu góð.“

Umræðan „löngu komin út í skurð“
Gísli Freyr Valdórsson viðskiptafréttastjóri Morgunblaðsins sagði umræðuna um málið einfaldlega hafa verið vitleysu og gagnrýndi líkt og Sigríður frammistöðu þingmanna á opnum nefndarfundum síðustu viku. „Það er ýmislegt sem mátti gagnrýna í þessu útboði og margt sem mátti betur fara þar, en umræðan á hinum pólitíska vettvangi er löngu komin út í skurð.“

„Við sáum það bara á fundum fjárlaganefndar á miðvikudag og föstudag þar sem það kom bersýnilega í ljós að fulltrúar fjárlaganefndar hafa ekki verið að vinna vinnuna sína. Þau vita ekkert um málið. Eftiráspekin er gífurleg hjá þeim. Það er auðvitað mjög skrýtið að sjá þingmenn haga sér með þessum hætti.“

Sigríður sagðist að lokum þrátt fyrir ólíka sýn sína og Guðmundar vonast til þess að hann legðist á árar með þeim sem vildu klára söluferli Íslandsbanka, en hann svaraði því til að hann væri „algjörlega þar“.