Gunnar Jakobsson var undir lok síðasta árs skipaður varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika til fimm ára og tók hann við starfinu 1. mars síðastliðinn. Hann er fæddur í Reykjavík en uppalinn á Vestfjörðum, nánar tiltekið á Bíldudal. Á unglingsaldri flutti Gunnar til höfuðborgarinnar og hóf nám við Menntaskólann í Reykjavík. Að menntaskóla loknum lauk Gunnar cand.jur. prófi frá Háskóla Íslands í febrúar 1995. Um aldamótin flutti hann búferlum til Connecticut í Bandaríkjunum ásamt eiginkonu sinni, lækninum Guðrúnu Aspelund, þar sem hún lagði stund við sérnám í skurðlækningum meðan Gunnar hóf MBA-nám við hinn virta viðskiptaháskóla Yale.

„Upphaflega ætlaði ég mér að fara í framhaldsnám í lögfræði og var kominn inn í nám í alþjóðalögum við New York-háskóla. Einn daginn var ég að rölta um háskólasvæði Yale en við bjuggum í nágrenninu. Það var greinilega eitthvað við svæðið sem heillaði mig því þarna ákvað ég að sækja um í MBA-nám við skólann. Vorið 1999 fékk ég svo staðfestingu á að hafa komist inn í námið," segir Gunnar.

Gunnar kveðst fljótlega hafa áttað sig á því að námið væri ekki einungis hefðbundið háskólanám heldur var mikil áhersla lögð á undirbúning fyrir atvinnuleit að námi loknu. „Mörg af stærstu fyrirtækjum Bandaríkjanna mættu á skólasvæðið til að falast eftir starfskröftum og endaði það svo að sumarið 2000 var ég ráðinn til fjárfestingabankans Goldman Sachs sem sumarstarfsmaður. Ég kunni strax vel við mig þar og eftir útskrift var mér boðið að hefja störf hjá bankanum sem fastráðinn starfsmaður." Svo vel kunni Gunnar við sig hjá bankanum að hann starfaði þar í tæplega tvo áratugi, eða allt þar til hann lét af störfum þar til að færa sig yfir til Seðlabanka Íslands.

Allir fengu að koma sínum sjónarmiðum að

Hjá Goldman Sachs gegndi Gunnar ýmsum stjórnunarstöðum, lengst af í New York, en síðustu tvö árin sem framkvæmdastjóri lausafjáráhættusviðs og yfirmaður persónuverndar hjá Goldman Sachs International í Lundúnum. „Það sem mér þykir einkenna Goldman Sachs, og ég upplifði frá mínum fyrsta degi hjá fyrirtækinu var fagmennska, fjölbreytni og öflugt samstarfsfólk," segir Gunnar, beðinn um að lýsa tíma sínum hjá fjárfestingabankanum.

„Fagmennskan var í fyrirrúmi í öllu því sem gert var innan fyrirtækisins. Verkefnin sem mér voru falin voru gríðarlega fjölbreytt og krefjandi. Fyrirtækið leggur mikla áherslu á að ráða inn fólk með mismunandi menntun og ólíkan bakgrunn og það er mjög sterk trú innan fyrirtækisins að það efli ákvarðanatöku að sem flest sjónarmið komist á framfæri. Þá skiptir engu máli hvort um sé að ræða nýráðinn starfsmann, yfirmann eða jafnvel forstjóra - öll sjónarmið eru lögð á borðið, málin rædd og loks tekin ákvörðun," bætir hann við.

Gunnar segir að tíminn hjá Goldman Sachs hafi verið með eindæmum lærdómsríkur. „Hjá Goldman Sachs er fólk fært milli starfa með nokkuð reglulegu millibili og vegna þessa var ég alltaf að auka við þekkingu mín á hinum ýmsu ólíku sviðum bankans. Ég var fenginn mikið í verkefni innan fyrirtækisins sem gengu út á að setja saman nýja hópa, hrinda nýjum hugmyndum í framkvæmd, , og vinna að stefnumótun og þ.a.l. tengdist maður mörgum starfsmönnum fyrirtækisins þvert á öll svið. Ég fékk mikla reynslu í að ráða og stýra fólki, allt að 100 manna deildum."

Beðinn um að fara yfir eftirminnilegustu tímabil á starfsferli sínum hjá fjárfestingabankanum, segir Gunnar að árið 2007 hafi verið áhugaverður tími fyrir verðbréfastýringu bankans en hann hafði nýtekið við áhættugreiningarteymi innan þess sviðs, enda hafi upphafs á fjármálahruninu ári síðar fyrst gætt hjá verðbréfasjóðum vorið 2007.

„Þetta hófst með því að tveir húsbréfa sjóðir hjá Bear Stearns fóru í þrot vegna lausafjárskorts og mikils magns illseljanlegra eigna. Í ágúst 2007 náði ólgan ákveðnu hámarki á markaði, sérstaklega hjá „long/short" vogunarsjóðum. Þó að markaðurinn hafi ekki verið að hreyfast nema 1-3% á hverjum degi, voru sjóðirnir að sveiflast um hátt í 20% innan dags, bæði vegna þess að þeir voru mjög vogaðir og einnig vegna þess að þeir voru með samþjöppun í þeim hlutabréfum sem sveifluðust sem mest. Það var því mikill og góður skóli að koma inn í áhættustýringu á þessum tíma."

Langir vinnudagar

Gunnar segist þó hafa lært mest af þeim óförum sem dundu yfir í kjölfarið, þegar heimshagkerfið var að hruni komið haustið 2008.

„Maður lærir aldrei eins mikið og þegar á móti blæs. Það að fara í gegnum dýpstu kreppuna frá haustinu 2008 og fram á árið 2009 var eftir á að hyggja að mörgu leiti áhugaverður tími, þó að hann hafi vissulega verið mjög krefjandi. Það jákvæða við svona krísur er að við slíkar aðstæður fer mun minna fyrir pólitík í allri ákvarðanatöku - það er horft í meiri mæli á vandamálin sem þarf að leysa og í þær aðgerðir sem þarf að ráðast í og hvernig það skuli gert. Allir eru að róa í sömu átt."

Haustið 2008 varð Goldman Sachs í fyrsta sinn að banka í skilningi laga og féll í kjölfarið undir eftirlit Seðlabanka Bandaríkjanna. Mér var falið að sinna samskiptum við seðlabankann fyrir hönd markaðsáhættusviðs Goldman Sachs. Þar tók ég þátt í fyrstu samræmdu álagsprófunum seðlabankans sem voru framkvæmd í byrjun árs 2009. Markmiðið með þeim var að meta fjármögnunarþörf bandaríska bankakerfisins, þannig að bankarnir væru í stakk búnir til að lána og styðja við hagkerfið. Þarna voru vísindin á bakvið álagsprófin að byrja fyrir alvöru og því var svolítið verið að finna upp hjólið."

Gunnar játar því að langir vinnudagar séu fylgifiskur þess að vinna hjá Goldman Sachs.

„Ég vaknaði oft klukkan fimm á morgnanna og var svo ekki kominn heim fyrr en um klukkan átta á kvöldin. Dagarnir voru langir og ég fékk stundum samviskubit yfir því gagnvart fjölskyldunni, en mér fannst þó alltaf gaman í vinnunni," segir Gunnar og kveðst þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að starfa hjá fjárfestingabankarisanum. „Það segir ýmislegt um stærð bankans að hann kemur að um þriðjungi af öllum samrunum á heimsvísu, í dollurum talið. Það er því mikið sem fer þarna í gegn. Þá er bankinn með um 10-15% hlutdeild á bandaríska hlutabréfamarkaðnum. Gjaldeyrisforði Íslands er um 950 milljarðar króna en til samanburðar var lausafjárforði Goldman Sachs 290 milljarðar dollara á síðasta ársfjórðungi eða 40 sinnum stærri en gjaldeyrisforðinn. Stærðirnar í þessu umhverfi eru því ansi miklar."

Nánar er rætt við Gunnar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .