Í byrjun september á síðasta ári greindi Michele Ballarin, sem festi m.a. kaup á vörumerkinu WOW air út úr þrotabúi félagsins, frá því að starfsemi nýs flugfélags undir þeim merkjum myndi hefjast í október milli Keflavíkur og Washington. Þær áætlanir hafa svo síendurtekið frestast og til að gera langa sögu stutta hefur félagið ekki enn hafið starfsemi þó að í byrjun mánaðarins hafi Facebook síða WOW verið endurvakin auk þess sem Ballarin greindi frá því á LinkedIn síðu sinni í síðasta mánuði að WOW air myndi taka á loft á næstu vikum.

Þá hefur félagið tilkynnt um ýmsar ráðningar á síðustu misserum. Kristján Þorvaldsson hefur verið ráðinn yfirmaður tæknimála, Björg Ásgeirsdóttir var ráðin aðstoðarkona stjórnarformanns WOW og sem yfirmaður samfélagsmiðla, Bandaríkjamaðurinn Mark Pond sem framkvæmdastjóri sölumála og dreifileiða auk þess sem Ítalinn Giuseppe Cataldo hefur verið ráðinn yfir starfsemi félagsins á Ítalíu.

Töluverð leynd og óvissa ríkir hins vegar í kringum hið nýja WOW. Skilaboð um starfsemi félagsins hafa verið nokkuð misvísandi og í raun er erfitt að átta sig á því hvort félagð ætli að sinna farþegaflugi, fraktflugi eða hvoru tveggja. Skilaboðin hafa þó frekar verið á þá leið að WOW muni leggja áherslu á fraktflug í upphafi en óhætt er að segja að staðan á þeim markaði í heiminum sé langt frá því að vera fýsileg um þessar mundir.

Samkvæmt skýrslu sem IATA, alþjóðasamtök flugfélaga, sendi frá sér í byrjun vikunnar dróst umfang í fraktflugi saman um 3,3% á heimsvísu á árinu 2019 en það var í fyrsta sinn sem það gerist frá árinu 2012 auk þess sem samdrátturinn var sá mesti frá hruni. Þar af dróst umfang í alþjóðlegum fraktflutningum í Norður-Ameríku saman um 2,9% og um 1,7% í Evrópu. IATA gerir ráð fyrir 2% vexti í fraktflutningum á þessu ári en sú spá byggir þó á þeirri forsendu að alþjóðaviðskipti taki við sér á nýjan leik auk þess sem hún gerir ekki ráð fyrir ófyrirséðum áhrifum af útbreiðslu kórónuveirunnar á heimshagkerfið sem hefur nú þegar haft töluverð áhrif á fraktflug í heiminum.

Ætli félagið sér að fara af stað með því að sinna bæði farþegaflutningum og fraktflugi í miklu magni virðist sem sú brekka gæti orðið brött. Einn viðmælandi blaðsins sem vel þekkir til í fraktflutningum segir að mjög erfitt sé að tvinna saman farþegaog fraktflutninga og að margir hafi farið illa á því módeli í gegnum tíðina. Þá var einnig bent á að flutningur á fiski, sem Ballarin hefur meðal annars nefnt að yrði eitt af áhersluatriðum nýs félags, sé langt frá því að vera arðbær einn og sér.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .