Knattspyrnufélagið FRAM og Reykjavíkurborg hafa náð samkomulagi um uppbyggingu íþróttamannvirkja í Úlfarsárdal. Samkomulagið af hálfu FRAM er gert með fyrirvara um samþykki aðalfundar félagsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu. Með þessu lýkur ferli sem hófst árið 2004 og felur í sér að FRAM flytur höfuðstöðvar sínar í Úlfarsárdal og uppbygging íþróttamannvirkja félagsins þar hefjist fyrir alvöru.

Deilur milli FRAM og Reykjavíkurborgar síðustu ár snérust að mestu um að hverfið, sem upphaflega átti að vera 25.000 manna hverfi, var skorið niður í um 9.500 manna hverfi og aðstaða félagsins var takmörkuð að verulegu leyti frá fyrstu samningum. Viðræður um lausn hafa staðið yfir um árabil en nú hafa samningsaðilar komist að niðurstöðu. Í henni felst m.a. að í Úlfarsárdal verður byggt:

  • Fjölnota íþróttahús með áhorfendaaðstöðu, þar sem rúmast tveir handknattleiksvellir í fullri stærð.
  • Áhorfendaaðstaða fyrir aðalleikvang í knattspyrnu, búningsklefar og minni íþróttasalir
  • Félags- og þjónustuaðstaða, samkomusalur, fundaraðstaða og fleira
  • Aðalleikvangur FRAM með gervigrasi, upphitun, flóðlýsingu, vökvunarkerfi og áhorfendastúku með þaki
  • Grasæfingavellir

Í'fréttatilkynningunni segir að ljóst sé að álíka aðstaða verði aldrei möguleg í Safamýri og það er trú samninganefndar að íbúafjöldi í Úlfarsárdal verði meiri en núverandi skipulag gerir ráð fyrir, enda er þetta eitt besta byggingasvæði á höfuðborgarsvæðinu. FRAM hefur því miklar væntingar til þess að nú verði staðið við gerða samninga þannig að íbúar hverfisins, iðkendur og Knattspyrnufélagið FRAM geti starfað saman af krafti og metnaði að framtíðaruppbyggingu íþróttastarfs á svæðinu. Uppbygging í Úlfarsárdal hefst nú þegar og verður að fullu lokið árið 2021. Talið er að kostnaður borgarinnar nemi allt að fjórum milljörðum eins og Viðskiptablaðið greindi frá í desember.

„Þetta hefur tekið miklu lengri tíma en við hefðum viljað, en FRAM varð að standa í lappirnar til að ná fram þeirri aðstöðu sem íbúar hverfisins og félagið eiga skilið. Loks er komin niðurstaða í þetta umdeilda og flókna mál og nú getum við hafist handa við að horfa til framtíðar,“ segir Guðmundur B. Ólafsson, formaður samninganefndar.