Ingólfur Bender, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, telur að húsnæðisverð hefði hækkað mun minna í kjölfar vaxtalækkana seðlabankans í fyrra ef framboð hefði verið meira. Hann segir að byggingageirinn hafi nægt svigrúm til að bæta í og að það sé alrangt að metfjöldi íbúða sé nú í byggingu.

„Okkar afstaða er sú að húsnæðisuppbygging þurfi að vera jöfn og mæta þörf fólksins í landinu til lengri tíma. Við þurfum að forðast þessar sveiflur.“

Hann viðurkennir að það sé síður en svo einfalt viðfangsefni, og margir áhrifaþættir spili þar inn í sem eru á valdi og ábyrgð ólíkra aðila. „Það víkur ekki síður að almennri hagstjórn en skipulagningu sveitarfélaga á íbúðauppbyggingu.“

Nokkrar umræður sköpuðust á dögunum um þátt Reykjavíkurborgar og skipulagsmála hennar í þeim verðhækkunum sem riðið hafa yfir fasteignamarkaðinn síðastliðið ár eða svo, eftir að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri vakti máls á því, og vísaði sérstaklega til þéttingarstefnu borgarinnar.

Konráð Guðjónsson hagfræðingur Viðskiptaráðs benti á að fasteignaverð hafi verið að hækka um allan heim, og Kristrún Frostadóttir hagfræðingur og frambjóðandi Samfylkingarinnar í komandi þingkosningum brást ókvæða við og gagnrýndi ummæli Ásgeirs í löngu máli.

Hún sagði það einfaldlega ekki standast að 14% hækkun húsnæðisverðs á nokkrum mánuðum mætti rekja til þéttingarstefnu borgarinnar. Það sem hafi breyst í fyrra hafi verið mörg hundruð milljarða flæði fjármagns inn á fasteignamarkaðinn í kjölfar vaxtalækkana og annarra aðgerða seðlabankans.

Minni hækkanir ef framboð væri nægjanlegt
Ingólfur tekur hinsvegar að mestu leyti undir með seðlabankastjóra. „Það er mjög erfitt að bregðast við miklum sveiflum í eftirspurn framboðsmegin. Það sem gerðist með vaxtalækkuninni er að við sáum þessa uppsöfnuðu þörf birtast í aukinni eftirspurn. Fólk sem hefur búið í heimahúsum, verið á leigumarkaði og svo framvegis, sem allt í einu fékk tækifæri – eins og Ásgeir komst að orði – til að eignast eigin kastala,“ segir Ingólfur og vísar þar til orða seðlabankastjóra um þann hóp sem hefur keypt sína fyrstu fasteign á síðasta rúma árinu.

„Þú leysir þessa eftirspurn svolítið úr læðingi með því að veita þeim aukna kaupgetu með lækkun vaxta og auknu aðgengi að fjármagni.“

Þannig telur hann ljóst að eftirspurnaráhrif vaxtalækkunarinnar hefðu verið mun minni ef framboðið hefði verið meira fyrir. „Ekki spurning. Ef framboðið hefði verið meira og nægjanlegt til að mæta þessu þá hefðum við séð minni áhrif á verðið.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .