Varmaorka er íslenskt fyrirtæki sem leggur áherslu á tækifæri sem felast í framleiðslu rafmagns á jarðhitasvæðum, tækifæri sem ekki hafa verið nýtt til þessa þar sem jarðhiti er um og yfir 100°C. Fyrirtækið þróar, fjármagnar, reisir og starfrækir smáar jarðhitavirkjanir á Íslandi. Fyrsta virkjun félagsins, sem staðsett er við Kópsvatn rétt fyrir utan Flúðir, var gangsett í nóvember á síðasta ári með uppsett afl upp á 600 kW og áætlað er að bæta við nokkrum virkjunum á þessu ári.

„Það sem við erum fyrst og fremst að gera er að nýta umframvarma úr borholum hjá sveitarfélögum og landeigendum til framleiðslu á rafmagni. Vatnið sjálft nýtist svo áfram til húshitunar. Með þessu nýtist auðlindin, sem sagt varminn og heita vatnið, á hagkvæman hátt," segir Ragnar Sær Ragnarsson, framkvæmdastjóri Varmaorku.

Að sögn Ragnars hefur sjálfbærnin sem felst í framleiðslunni helst vakið áhuga sveitarfélaga. Þeim finnist heillandi að framleiða rafmagn í heimabyggð fyrir „sína heimabyggð", en það sé þó þannig að rafmagnið sem verði til úr framleiðslunni þurfi að selja beint inn á netið. „Sveitarfélagið er þá að framleiða rafmagn innan sveitarfélagsins sem að jafnar til þess sem þau eru að nota af rafmagni, auk þess sem það er mögulega hægt að nýta þetta rafmagn innan sveitarfélagsins ef rafmagnið fer af."

Nýta auðlindir sem þegar eru til staðar

Búnaðurinn sem Varmaorka setur upp er í eigu félagsins, auk þess sem fyrirtækið sér um reksturinn. Félagið sér einnig um að afla tilskilinna leyfa og réttinda áður en virkjunum er komið fyrir. Þá sér félagið um að ganga frá orkusölusamningum. Fyrirtækið greiðir afgjald fyrir afnot af heita vatninu, en afgjaldið er tengt við tekjur af seldu rafmagni.

„Þetta er fyrst og fremst mögulegt af því það er búið að bora, en við viljum ekki að kostnaðurinn af þessum verkefnum verði of mikill. Þetta er því spennandi kostur fyrir sveitarfélög og spennandi fyrir okkur sömuleiðis að finna staði þar sem allir nauðsynlegir innviðir eru til staðar og búið er að leggja í ákveðinn kostnað, þannig að hægt sé að ná fram ávinningi fyrir alla," segir Ragnar.

„Það má segja að þetta komi til viðbótar. Hitaveiturnar eru yfirleitt gífurlega stórar fjárfestingar hjá sveitarfélögunum og þessi lausn okkar kemur því og styður við þær fjárfestingar sem þegar eru á svæðinu. Það má því segja að við séum að nýta auðlindir sem eru þegar til staðar," segir Ingvar Garðarsson, stjórnarformaður Varmaorku.

„Við vitum til þess að menn hafa verið að gera tilraunir á árum áður við þessa framleiðsluaðferð sem hafa svo mistekist. Það er alls ekki auðvelt að koma þessari tækni upp og fá hana til að virka. Við erum að horfa til langs tíma með þessum fjárfestingum. Þetta eru fjárfestingar sem eru í líkingu við fasteignafjárfestingar, sem gefa af sér í mjög langan tíma," bætir hann við.

Nánar er fjallað um málið í fylgiriti Viðskiptablaðsins, Orka og iðnaður. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .