Ítalski súkkulaði og sælgætisframleiðandinn Ferrero SpA, hefur sýnt áhuga á að kaupa erlenda starfsemi bandaríska súpuframleiðandans Campbell, sem inniheldur m.a. Arnott kexverksmiðjunnar.

Ferroro er einna þekktast fyrir framleiðslu á Nutella hnetu- og súkkulaðiálegginu sem stofnað var í Alba, Piedmont á Ítalíu árið 1946. Einnig framleiðir fyrirtækið Kinder súkkulaði og Tic Tac. Campbell er þekkt fyrir niðursoðnar súpur sínar sem seldar eru í yfir 120 löndum út um allan heim, en höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Camden, New Jersey.

Samkvæmt heimildum Reuters er Ferrero að skoða kaupin ásamt því að semja við Rotschild um að taka að sér ráðgjöf við viðskiptin. Verðmæti viðskiptanna gæti numið meira en 2 milljörðum dala, eða sem samsvarar 247 milljörðum íslenskra króna.

Campbell hóf söluferli á alþjóðlegum og ferskvöruhlutum starfsemi sinnar í ágúst eftir innri endurskoðun, en þar fetar fyrirtækið í kjölfar annarra bandarískra fyrirtækja eins og Kraft Heiz og Kelogg sem einnig hafa losað sig við hluta af vörumerkjalínum sínum.

Campbell náði nýlega samkomulagi við Third Point vogunarsjóð milljarðamæringsins Daniel Loeb sem hafði sett þrýsting á fyrirtækið. Meðal þeirra vörumerkja sem eru í þeim hluta fyrirtækisins sem nú er verið að íhuga að selja er Kelsen Group, auk framleiðslustarfsemi í Indónesíu, Malasíu auk annarrar starfsemi í Hong Kong og Japan.