Stjórn bandaríska lyfjafyrirtækisins Purdue samþykkti í gær umsókn fyrirtækisins til yfirvalda um að vera tekið til gjaldþrotaskipta (e. Chapter 11 filing). Með gjaldþrotinu bindur stjórnin vonir um að ljúka megi þeim 2.000 málsóknum sem félagið glímir við vegna meints hlutverks þess í ópíum-faraldrinum. BBC greinir frá þessu en segir yfirvöld í sumum fylkjum Bandaríkjanna ekki hlynnt því að félagið fái að ljúka málaferlunum með gjaldþroti.

Purdue, sem er í eigu milljarðamæringa sem tilheyra Sackler fjölskyldunni, er sakað um að átt stóran þátt í að hrinda af stað ópíum-faraldrinum með því að ýta undir sölu hættulegra og mjög ávanabindandi verkjalyfja eins og OxyContin. Í dag er áætlað að 130 einstaklingar láti að meðaltali lífið á hverjum degi vegna ofneyslu og samtals er talið að 200 þúsund manns hafi látist af of stórum skammti ópíum-skyldra verkjalyfja síðastliðna tvo áratugi.

Í yfirlýsingu frá Sackler fjölskyldunni segist hún vona að gjaldþrotið verði til þess að eignarhald hennar á Purdue ljúki og tryggi að eignir félagsins renni til uppbyggilegra samfélagsverkefna.

Ekki er víst að ósk Sackler fjölskyldunnar um skjót málalok nái fram að ganga. Í síðustu viku var greint frá því að fjölskyldan hafi fært að minnsta kosti einn milljarð dollara frá Bandaríkjunum yfir á bankareikninga víðs vegar um heiminn, þar á meðal til banka í Sviss.  Forbes áætlar að eignir Sackler fjölskyldunnar séu um 13 milljarðar dollara.