Skiptaréttur í Bandaríkjunum hefur samþykkt nauðasamning lyfjaframleiðandans Purdue Pharma, sem framleiðir OxyContin verkjalyfin. Meðlimir Sackler fjölskyldunnar, sem eiga Purdue, öðlast friðhelgi frá frekari málssóknum vegna hlutverk síns í ópíóða-krísunni.

Samkomulagið felur einnig í sér að Sackler fjölskyldan greiði 4,5 milljarða dala, eða um 570 milljarða króna, í bætur til fórnarlamba. Lyfjafyrirtækið verður leyst upp og eignir færðar yfir til fyrirtækis sem mun þróa meðhöndlun fyrir neikvæðum áhrifum ópíóða. Purdue áætlar að heildarvirði sáttarinnar nemi um 10 milljörðum dala.

Robert Drain, dómari skiptarétarrins, lýsti niðurstöðunni sem „beiskri“ og segist hafa vonað eftir meiru frá Purdue og Sackler fjölskyldunni, að því er kemur fram í frétt Financial Times . Hann bætti þó við að hann vildi ekki stofna í hættu þeim bótum sem felast í samkomulaginu.

Purdue sótti um að vera tekið til gjaldþrotaskipta í september 2019 eftir að hafa fengið yfir sig þúsundir málssókna, meðal annars frá fylkjum, bæjarfélögum og ættbálkum frumbyggja. Um 80% af fylkjum Bandaríkjanna samþykktu nauðasamninginn.