Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, segir Framtakssjóð Íslands hafa náð að búa til óhemju mikil verðmæti undanfarin átta ár. Stefnt er að því að slíta sjóðnum í kringum áramótin. Hún segir lífeyrissjóðina hafa staðið undir 3,5% uppgjörsviðmiði sé litið til sögulegrar ávöxtunar og að varasamt sé að þrýsta á sjóðina að fjárfesta meira erlendis.

Nú hefur Framtakssjóður Íslands verið starfandi í tæplega átta ár. Í upphafi var gert ráð fyrir því að sjóðurinn myndi ljúka sínu verkefni á sjö til tíu árum. Hvernig metur þú árangur sjóðsins?

„Framtakssjóðurinn hefur skilað gríðarlega góðu verki og hefur verið mjög vel heppnuð fjárfesting á heildina litið. Hann var stofnaður af sextán lífeyrissjóðum í árslok 2009 með það að markmiði að stuðla að endurreisn íslensks atvinnulífs. Fjárfest var í fyrirtækjum sem voru í fjárhagsvanda en talin eiga sér vænlegan rekstrargrundvöll. Stefnt skyldi að sölu fyrirtækjanna á næstu fjórum til sjö árum eftir einstaka fjárfestingu.

Sjóðurinn hefur náð að búa til óhemju mikil verðmæti og á þessu ári er hann búinn að greiða um 74,5 milljarða króna til hluthafa frá upphafi en innborgað hlutafé er 43,3 milljarðar. Ársraunávöxtun er um það bil 23%.

Nú mun vera unnið að því að klára þetta verkefni og leysa úr því sem eftir er og ætti það að klárast í kringum áramótin. Það er gott að það sé umræða í kringum sjóðinn. Allir þurfa aðhald en sjóðurinn hefur óneitanlega skilað vel af sér og styrkir umrædda sjóði til greiðslu lífeyris til sinna sjóðfélaga.“

Hafa staðið undir uppgjörsviðmiði

Því er oft haldið fram að 3,5% raunávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna myndi eins konar vaxtagólf sem viðheldur háu vaxtastigi á Íslandi. Telur þú þessa umræðu vera á villgötum?

„Umræðan um þessa raunávöxtunarkröfu er byggð á misskilningi. Þetta er ekki raunávöxtunarkrafa heldur ávöxtunarviðmið. Um er að ræða uppgjörsreglu sem segir að lífeyrissjóðir geri upp og núvirði sínar eignir og skuldbindingar miðað við 3,5% raunvaxtastig og að þetta sé sú ávöxtun sem eigi að nást að jafnaði til langs tíma svo að eignir og skuldir séu í jafnvægi. Lífeyrisréttindi byggja á því viðmiði.

Það hvort 3,5% sé rétt eða ekki kemur aldrei í ljós fyrr en síðar, en hingað til hefur þetta viðmið reynst vel. Þannig hefur meðalraunávöxtun lífeyrissjóðanna verið 4,5% frá 1981.

Sumir hafa lagt til að þetta viðmið verði lækkað eða afnumið og þess í stað notuð markaðskrafa á hverjum tíma. Slík aðferð hefur þá ókosti að aðlaga þyrfti réttindin með því að skerða eða auka réttindi til samræmis við tímabundnar sveiflur á markaði. Lífeyrissjóðirnir hafa staðið undir þessari uppgjörsreglu sé litið til sögulegrar ávöxtunar en það verður alltaf spurning hver ávöxtunin verður til framtíðar litið.“

Hlaupa ekki út á einni nóttu

Eftir afnám hafta hefur verið þrýst nokkuð á lífeyrissjóðina að fjárfesta meira erlendis. Það hefur til dæmis verið lagt til að lögfesta gólf á hlutdeild erlendra eigna í eignasöfnum sjóðanna. Hvernig leggst það allt saman í þig?

„Ég á ekki von á því að það verði eitthvað slíkt fest í lög. Í skýrslu starfshóps sem skipaður var af fjármála- og efnahagsráðherra í mars síðastliðnum kom fram að ekki væri talið æskilegt að breyta núverandi löggjöf um erlendar fjárfestingar. Ég tel varasamt að setja pólitískan þrýsting á lífeyrissjóðina um að auka hlutdeild erlendra eigna í sínum eignasöfnum. Maður finnur fyrir því að lífeyrissjóðirnir eru að huga að auknum fjárfestingum erlendis, enda er nauðsynlegt að dreifa áhættunni.

Það tekur hins vegar langan tíma. Eftir átta ára haftatímabil tekur tíma að meta stöðuna á erlendum eignamörkuðum, sérstaklega í því lágvaxtaumhverfi sem er víða til staðar. Lífeyrissjóðirnir eru einnig umsvifamiklir á innlendum eignamörkuðum og geta ekki kippt fé út af þessum mörkuðum og hlaupið út á einni nóttu án þess að það valdi verðfalli og skakkaföllum í hagkerfinu. Þetta gerist hægt og bítandi og þarf að vera mjög vandað.

Það þarf einnig að hafa í huga að lífeyrissjóðirnir eru mjög ólíkir. Markmiðið hjá hverjum og einum er að finna þá eignasamsetningu sem tryggir að þeir séu sem best í stakk búnir til að standa við sínar skuldbindingar. Eignaval lífeyrissjóða getur verið mjög mismunandi. Svo eru sjóðirnir misþroskaðir, ef svo má segja. Sumir eru með meira útstreymi á meðan aðrir eru ungir og með unga sjóðfélaga, mikið innstreymi og þar með mikið ráðstöfunarfé, og hafa því meiri fjárfestingargetu.“

Nánar er rætt við Þóreyju S. Þórðardóttur í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .