Nú þegar komin er mánaðarreynsla á opnunartíma til 23:00 er nokkuð ljóst að þetta dugar engan veginn. Við erum að dansa í kringum 30% af því sem hægt er að búast við í eðlilegu árferði og búum við stöðu sem er með engu móti sjálfbær, ”segir Þórður Ágústsson, einn af eigendum skemmtistaðarins B5.

Mikil umfjöllun hefur verið um leigusamning staðarins en samningaviðræður við leigusala standa nú yfir. Félagið hefur fengið aðstoð frá hinu opinbera. Það hlaut meðal annars lokunarstyrk að andvirði 2,4 milljónir króna sem, að sögn Þórðar, er sama fjárhæð og klippistofur landsins fá greitt.

„Nú höfum við fengið greitt lokunarstyrki, sem dugar ekki fyrir einn mánuð í leigu í okkar tilfelli. Við erum að fá sömu lokunarstyrki og hárgreiðslu- og snyrtistofur, sem opnuðu fyrir rúmum tveimur mánuðum. Ég get verið lokaður áfram í tvo, þrjá, sex mánuði en fæ samt sama styrk og sá sem opnaði fyrir tveimur mánuðum,“ segir Þórður og leggur áherslu á að staðurinn geti ekki framfleytt sér miðað við núverandi opnunartíma.

Því er ljóst að rekstur félagsins mun vera strembinn á næstunni en opnunartími skemmtistaða mun áfram takmarkast við 23:00 til 26. júlí næstkomandi, hið minnsta. „Við fórum með mjög jákvæðum huga inn í þetta og gerum að sjálfsögðu engar athugasemdir við það að þurfa að loka.

Við vorum með sjóði sem samanstóðu af hagnaði fyrri ára, þurrkuðum þá upp, færðum okkur í lánalínur en hversu lengi eigum við að halda því áfram,“ er haft eftir Þórði og bætir hann við að óvissan er gríðarleg. Mikilvægt sé að félög hafi aðgang að lánsfé en ekki má gleymast að slíkt getur ekki gengið upp til langs tíma. „Þetta er bara dauðagildra fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.

Á einhverjum tímapunkti þarf að greiða þetta allt til baka og þá er spurning hvað breytist þegar allt opnar á ný. Mun framleiðni félaga aukast, munu þau fá fleiri kúnna, einhvern veginn þarf að standa straum af núverandi lántöku.“ Árið 2019 velti B5 rúmlega 200 milljónum króna, tapaði tæplega fimm milljónum og greiddi engan arð. Eigið fé félagsins var 22,9 milljónir. Árið 2018 nam hagnaður 21,5 milljónir og greiddi félagið 40 milljónir í arð en 50 milljónir árið 2017.