Skráningaráform bandaríska fjártæknifyrirtækisins Better sem Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, er lykilfjárfestir í hefur tekið talsverðum breytingum eftir rekstrarerfiðleika og hópuppsagnir á síðustu misserum. Skráning á markað í gegnum samruna við sérhæft yfirtökufélag á vegum Novator hefur verið frestað um nokkra mánuði.

SPAC-félagið Aurora Acquisition Corp var stofnað í mars á síðasta ári að undangengnu um 280 milljóna dollara hlutafjárútboði sem Novator leiddi. Björgólfur Thor er stjórnarformaður Aurora. Í maí 2021 var tilkynnt um að félagið myndi renna saman við Better.com.

Upphaflega var ráðgert að fjárfest yrði fyrir tæplega 1,8 milljarða dollara í Better sem verðmat félagið á um 7,7 milljarða dollara eftir skráninguna. Novator myndi fjárfesta fyrir 200 milljónir dollara, um 26 milljarða króna. Auk þess myndi Novtor ábyrgjast 278 milljóna dollara fjárfestingu Aurora í Better með því að  bæta upp fyrir hugsanlega innlausn annarra hluthafa í Aurora fyrir skráninguna. Samhliða því myndi japanski fjárfestingarisinn Softbank kaupa hluti í Better fyrir 1,3 milljarða dollara.

Sjá einnig: Risauppsagnir hjá Better

Í lok nóvember, nokkrum dögum fyrir Zoom-uppsagnirnar alræmdu, var tilkynnt um að fjármögnun hefði verið breytt töluvert. Softbank myndi lána Better 650 milljónir dollara og Novator 100 milljónir dollara strax til að styrkja lausafjárstöðu félagsins, sem svo yrði breytt í hlutafé ef af skráningu á markað yrði. Softbank hafði upphaflega stefnt að því að greiða 950 milljónir dollara fyrir hluti annarra hluthafa í Better. Fallið var frá því og ákveðið að öll fjárfestingin yrði nýtt til að styrkja fjárhagsstöðu Better.

Novator hætti um leið við að ábyrgjast hugsanlega innlausn hluthafa Aurora. Þess í stað á að gefa út skuldabréf með breytirétti í hlutafé ef af skráningunni verður sem numið getur frá um hálfum milljarði dollara og upp að ríflega 700 milljónum dollara eftir innlausnarhlutfalli Aurora. Þá var frestur til að ljúka skráningunni framlengdur út september á þessu ári í stað febrúar líkt og upphaflega stóð til.

Samkvæmt skráningarlýsingunni er ráðgert að Novator eigi 16,4 milljónir hluta í Better eftir skráningu sem samsvarar ríflega 2% af útgefnu hlutafé félagsins og er um 164 milljóna dollara virði samkvæmt skráningarlýsingunni. Samkvæmt fréttum erlendra miðla sem fjallað hafa um kaupin hafa aðilar á fjármálamarkaði dregið í efa hve raunhæft verðmatið sé Better í viðskiptunum í ljósi fjárhagserfiðleika félagsins. Miðað hefur verið við að hlutur núverandi hluthafa í Better sé metinn á um 6,9 milljarða dollara.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .