Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála (ÚUA) hefur hafnað kröfu veiðifélaga og náttúruverndarsamtaka um að fresta réttaráhrifum starfs- og rekstrarleyfis vegna laxeldis í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Ekki þótti líklegt að alvarleg umhverfisáhrif kæmu fram á meðan meðferð mála fyrir nefndinni vegna eldisins stendur yfir.

Um er að ræða annars vega starfs- og rekstrarleyfi fyrir 9.800 tonna laxeldi í sjókvíum í Berufirði og hins vega 11 þúsund tonna eldi í Fáskrúðsfirði. Í báðum tilfellum er leyfishafi Fiskeldi Austfjarða hf. Kærendur eru samtökin Laxinn lifi, Veiðifélag Breiðdæla, Veiðifélag Hofsár og Sunnudalsár, Veiðifélag Selár og Veiðifélag Vesturdalsár.

Samkvæmt leyfunum, sem Matvælastofnun gaf út, má að hámarki hafa sex þúsund tonn af frjóum laxi í kvíunum. Kærendur málsins töldu sig hafa mikilla hagsmuna að gæta enda ljóst að eldislaxinn hefði erfðamengun í för með sér auk þess að hætta væri á ýmsum smitsjúkdómum frá fisknum. Var þar bent á laxalús en einnig að eldið hefði í för með sér „stórfellda saur- og fóðurleyfamengun“.

ÚUA féllst ekki á þau rök. Í tilfelli Berufjarðar var á það bent að nú þegar væri þar í gildi leyfi fyrir sex þúsund tonna eldi á ári og í ljósi þess varð ekki séð að slík hætta væri yfirvofandi að það réttlætti því að fresta réttaráhrifum leyfanna. Hvað Fáskrúðsfjörð varðar benti nefndin á að í Reyðarfirði væri nú þegar sex þúsund tonna eldi. Því væri ekki hægt að sjá að smit- eða erfðablöndunaráhætta myndi aukast og því ekki tilefni til að fresta réttaráhrifum á meðan málin væru til meðferðar hjá nefndinni.

„Þó skal á það bent að ýmis álitaefni eru uppi í málinu og ber leyfishafa alla áhættu af því að hefja nýtingu á grundvelli hins kærða leyfis á meðan ekki liggur fyrir endanleg niðurstaða um lögmæti þess,“ segir í niðurlagi úrskurðarins.