Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra hefur ákveðið að framlengja um 12 mánuði frest fyrirtækja og stofnana til að öðlast jafnlaunavottun samkvæmt ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Framlengingin tekur til fyrirtækja og stofnana, óháð stærð þeirra. Reglugerð ráðherra þessa efnis tók gildi í dag.

Framlengdur frestur nær þó ekki til allra

Aukinn frestur samkvæmt ákvörðun ráðherra nær ekki til opinberra stofnana, sjóða og fyrirtækja sem eru að hálfu eða að meiri hluta í eigu ríkisins með 25 starfsmenn eða fleiri að jafnaði á ársgrundvelli.

Ákvörðun ráðherra um aukinn frest, líkt og kveðið er á um í reglugerðinni sem tók gildi í dag var unnið í samráði við helstu hagsmunaaðila.