Í kjölfar kaupa Fjarskipa, móðurfélags Vodafone á starfsemi 365 miðla, fyrir utan Fréttablaðið og tímaritið Glamour, mun efni úr blaðinu samt sem áður birtast á vefsíðunni Vísi.is, sem fylgir kaupunum, í 44 mánuði.

Samkvæmt samstarfssamningi fyrirtækjanna tveggja, sem munu þá ekki lengur vera í eigu sömu aðilanna, mun Fréttablaðið hins vegar ekki hafa heimild til að birta eigin efni á eigin vefsíðu meðan samningurinn verður í gildi.

„Er samningurinn talinn nauðsynlegur til þess að samruninn gangi í gegn, þar sem Fjarskipti munu ekki hafa yfir að ráða fréttastofu af því tagi sem þarf til að sinna vefsíðunni visir.is þegar við afhendingu eigna samkvæmt samningnum, gangi kaupin eftir“, segir í samrunaskránni .

„Því telja samrunaaðilar nauðsynlegt að viðhafa slíktsamstarf tímabundið, til þess að tryggja samfellu í rekstri fréttasíðunnar visir.is, gangi samruninn í gegn.“

Kjarninn hefur bent á að þessi fullyrðing stangist á við aðra um að fréttastofa ljósvakamiðlanna og Vísis.is verði „eftir sem áður rekin af myndugleik og ekki eru áform um að draga úr getu hennar eða sjálfstæði. Þvert á mót ætti hún að eflast í efnahagslega sterkari samstæðu en áður.“