Frá og með deginum í dag býður Húsgagnahöllin upp á fría heimsendingu á öllu því sem viðskiptavinir kaupa hjá versluninni og senda þeim að kostnaðarlausu hvert sem er innanlands.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafa fleiri fyrirtæki boðið viðskiptavinum sérstakar lausnir, til að mynda endalaust gagnamagn, meðan á samkomubanni vegna útbreiðslu Covid 19 veirunnar stendur.

Egill Fannar Reynisson , einn eigenda Húsgagnahallarinnar segir fríu heimsendingarþjónustuna gilda bæði um vörur sem keyptar eru í gegnum vefverslun félagsins eða í verslunum Húsgagnahallarinnar í Reykjavík, á Akureyri og Ísafirði.

„Með þessu mætum við þörfum viðskiptavina okkar á þessum sérstöku tímum. Fólk er alla jafna meira heima núna en áður og við höfum heyrt og séð að margir eru að nýta tímann í að gera fallegt og hreiðra enn betur um sig. Tiltektir eru víst málið þessa dagana og þeim fylgja oft endurnýjun og breytingar,“ segir Egill Fannar.

Fría heimsendingin verður í boði allavega út marsmánuð en þá verður staðan endurmetin upp á hvort framhald verði á.

„Landsmanna vegna vonumst við auðvitað til þess að ástandið batni fljótt. Þeir sem þurfa þó að vera heima á næstunni geta allavega reitt sig á þjónustu okkar og við óskum þess að fólk fari vel með sig og njóti stundanna heima fyrir. Máltækið Heima er best hefur líklega aldrei átt betur við.“