Fulltrúar fimm fjölmiðla birtu á þriðjudag áskorun til Alþingis í Fréttablaðinu um „að jafna samkeppnisstöðu félaga á íslenskum fjölmiðlamarkaði“. Forsvarsmenn 365, Símans, Hringbrautar, ÍNN og Útvarps Sögu sögðu þar að einkareknir miðlar á Íslandi ættu í vaxandi erfiðleikum með að mæta samkeppni alþjóðlegra tæknirisa eins og Netflix, Google, Facebook, Amazon, Hulu og HBO, en jafnframt skekktu fjárframlög ríkisins til Ríkisútvarpsins samkeppnisstöðu.

Sko. Nú dregur fjölmiðlarýnir ekki í efa að reksturinn er þröngur hjá mörgum fjölmiðlum og að þar hefur stóraukin samkeppni erlendra miðla veruleg áhrif. Hann efast að vísu um Útvarp Saga finni mikið fyrir House of Cards eða Hringbraut fyrir lolköttum YouTube, en fyrir afþreyingarmiðla 365 og Símans hefur örugglega þrengst um.

En hvað með það? Alls kyns atvinnugreinar aðrar þurfa að aðlagast breyttum aðstæðum, tækni, smekk og duttlungum viðskiptavinanna, án þess að geta leitað á náðir skattgreiðenda um ívilnanir, eins og hér er augljóslega verið að gera.

Hitt er annað mál að það er engin góð ástæða fyrir því að RÚV sé á almennum auglýsingamarkaði og frómt frá sagt sér fjölmiðlarýnir engar góðar ástæður fyrir því að ríkisvaldið starfræki fjölmiðla yfirleitt.

* * *

Í Fréttablaðinu sl. mánudag var það aðalfréttin á erlendu síðunni (fjórdálkur með tveimur myndum og aukaramma), að Nóbelsverðlaunahagfræðingurinn Joseph Stiglitz hefði lýst yfir dauða nýfrjálshyggjunnar í viðtali.

Það eru svona ámóta mikil tíðindi að vinstrimaðurinn Stiglitz telji „nýfrjálshyggjuna“ úr sér gengna og að Hannes Hólmsteinn telji félagshyggjuna fremur til ógagns. Enda taldi blaðamaðurinn Sæunn Gísladóttir vissara að minna á það í 3. setningu fréttarinnar, að „Stiglitz [hefði] síðustu árin verið einn helsti gagnrýnandi nýfrjálshyggju.“

Allt um það, vafasöm rök Stiglitz fyrir þessu voru lauslega reifuð og síðan sagt: „Stiglitz deilir þessari skoðun með öðrum hagfræðingum“ og bent á umdeilt blogg þriggja hagfræðinga hjá AGS í maí því til sönnunar!

Nú er ástæðulaust að þjarka um hin hagfræðilegu álitamál þessa í fjölmiðladálki, en hitt blasir við, að þessi skoðun mannsins á sáralítið erindi í fréttir, allra síst sem aðalfrétt heimsbyggðarinnar eftir ekki tíðindalausa helgi. Það má enda sjá það með aðstoð Google, að engum öðrum fjölmiðli þótti þetta fréttnæmt.

* * *

Hins vegar var talsvert fjallað um Stiglitz í öðru samhengi þessa daga, því hann hefur verið að veita viðtöl til þess að kynna nýja bók sína um evruna, sem hann segir hafa reynst vera einstök og alger mistök, sem nú ógni Evrópusambandinu, Evrópuhugsjóninni og raunar framtíð Evrópu.

Frá því var hins vegar ekki sagt í Fréttablaðinu, þó sú frétt hafi bæði verið tíðindameiri og tímanlegri, ekki síst í ljósi leiðtogafundar Þýskalands, Frakklands og Ítalíu sama dag.

Það er erfitt að segja fyrir um hvað veldur svona skrýtnu fréttamati. Það er erfitt að verjast þeirri hugsun að þar ráði stjórnmálaskoðanir fremur en fréttamat, en hin yfirborðskennda umræða um „nýfrjálshyggjuna“ á Íslandi hefur aðeins verið pólitísk, en ekki hagfræðileg.

Hins vegar þykir þeim sígilda frjálshyggjumanni, sem þetta skrifar, gaman að segja frá því að umræddar eftiráskoðanir Stiglitz á Evrukreppunni eru einstaklega líkar því sem Milton heitinn Friedman spáði fyrir um hinn óstofnaða sameiginlega gjaldmiðil fyrir réttum 19 árum!

* * *

Hér var í liðinni viku vandað um við fjölmiðla fyrir að hafa sagt ótal fréttir af umdeildri ákvörðun sýslumannsins í höfuðborginni um að synja fárveikri konu og erlendum unnusta hennar leyfis til þess að ganga í hjónaband, án þess að nefna hinn ábyrga sýslumann nokkru sinni á nafn, hvað þá að hann væri spurður út í embættisfærslu sína. Svo var hann nefndur hér í dálkinum.

Vandinn er sá að yðar einlægur nefndi rangan mann, síðasta sýslumann, sem lét af störfum fyrir hartnær tveimur árum. Voru heimildir fjölmiðlarýnis þó ekki af verri endanum: vefur sjálfs embættisins! Það er þó ekki þannig að þar á vefnum sé beinlínis verið að flagga því hver gegni embættinu. Í raun er engu líkara en að þar vilji menn mikið leggja á sig til þess að fela það!

Fjölmiðlarýnir biður fv. sýslumann afsökunar á að hafa bendlað hann við umrædda embættisfærslu (sem dómsmálaráðherra hefur síðan ógilt) en upplýsir að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, sem ber ábyrgð á fyrrgreindum fautaskap, heitir Þórólfur Halldórsson.