Þetta er svolítið eins og bær í borginni, miklu stærra en fólk gerir sér almennt grein fyrir því við erum bara hérna inni á svæðinu,“ segir Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta, FS í daglegu tali. Stofnunin, sem eiginlega er ekki rétt að kalla stofnun, verður hálfrar aldar gömul þann 1. júní og á rætur að rekja til ýmissa átta, meðal annars til Noregs og þess áhuga sem Ármann Snævarr, þáverandi rektor Háskóla Íslands, og Björn Bjarnason, þáverandi formaður Stúdentaráðs, höfðu ásamt fleirum fyrir því að bæta aðstöðu nemenda við skólann. FS hefur á hálfri öld tekið töluverðum breytingum en kjarni hennar er óbreyttur. Guðrún var viðmælandi Viðskiptablaðsins í vikunni.

„Við erum umfram allt að þjónusta stúdenta við HÍ,“ segir Guðrún og hefur þjónustan aukist mikið á undanförnum áratugum. FS stendur vel á þessum tímamótum. Veltan er tæpir þrír milljarðar, eiginfjárhlutfall 62% og eign FS í fasteignum 27,5 milljarðar samkvæmt fasteignamati. Hjá FS starfa um 170 manns og FS rekur meðal annars Bóksölu stúdenta, Hámu, kaffistofur víða um háskólasvæðið, Stúdentakallarann, þrjá leikskóla og leigir síðast en ekki síst út um 1.200 íbúðir til nemenda við skólann, sem gerir FS að einu stærsta leigufélagi landsins. Nú eru um 245 leigueiningar til viðbótar í byggingu og stefna FS er að innan fimm ára leigi félagið 1.800 íbúðir.

Alla tíð farið fetið

Guðrún hefur verið framkvæmdastjóri FS í tæp nítján ár. Á löngum ferli hefur hún ágætlega sigtað út hvað til þarf til að fyrirtæki á borð við FS geti rækt hlutverk sitt. „Við höfum farið fetið alla tíð og passað okkur á að fara ekki út af sporinu. Það skiptir miklu máli við uppbyggingu húsnæðis, sérstaklega fyrir þennan hóp sem er frekar einsleitur að því leyti að hann er með grunna vasa. Þú þarft að bjóða með húsnæði sem allir hafa lagað efni á að búa í. Við verðum alltaf að hugsa þannig,“ segir Guðrún. „Það er kúnst að byggja bara pínulitlar íbúðir, því þær eru dýrastar. Við höfum alltaf þurft að vera viss um að þegar nýtt verkefni er skoðað að það gangi upp, alveg til enda. Öryggi, þekking og fyrirhyggja er eitthvað sem hefur safnast upp á þessum fimmtíu árum og hjálpað okkur,“ segir Guðrún.

600 íbúðir á fimm árum

FS fær lóðir undir stúdentagarða afhentar endurgjaldslaust en greiðir af þeim gatnagerðargjald og önnur lögboðin gjöld. „Við erum löngu búin að reikna út að það getur aldrei gengið að við kaupum lóðir. Það er ekki hægt. Okkur hafa staðið til boða lóðir víðsvegar um borgina, bæði frá einkaaðilum og öðrum en um leið og í ljós kemur að þær kosta eitthvað, þá verðum við að bakka út,“ segir Guðrún.

„Borgin og háskólinn eiga mikið lof skilið fyrir að hafa hjálpað okkur með þetta. Við höfum fengið mikið land hérna á háskólasvæðinu og lóðir hjá borginni og erum með samkomulag um að þau hjálpi okkur að finna land undir 600 íbúðir á næstu fimm árum. Við vorum að byrja á stærsta stúdentagarði landsins við Sæmundargötu 21, þar verða 245 leigueiningar og erum þá að leita að landi fyrir 350 í viðbót. Við erum í viðræðum við borgina um að komast í nýtt byggingarsvæði í Skerjafirði og erum að ræða við háskólann um reiti innan háskólasvæðisins. Við ætlum að gera þetta,“ segir Guðrún ákveðið.

„Þá erum við að ná upp í það lágmarkslangtímaviðmið að útvega 15% stúdenta húsnæði.“ Nú búa um 10% stúdenta í íbúðum FS. „Við náðum því í fyrsta skipti í fyrra þegar við komum inn með 102 nýjar íbúðir í Brautarholtinu. Auðvitað er þetta lágt og 15% er ekki hátt. Markaðurinn virðist ekki koma inn með litlar íbúðir og ef staðan verður áfram þessi þegar við erum komin í 1.800 íbúðir, þá höldum við bara áfram. Við gerum það alveg örugglega.“

Þúsund á biðlista

Þrátt fyrir þetta er enn langur biðlisti eftir íbúðum FS. „Þótt við höfum byggt mikið undanfarin ár hafa þeir lengst frekar en hitt. Það eru alltaf um þúsund á biðlista eftir úthlutun að hausti. Auðvitað er það þannig að við þurfum að hafa talsvert langan biðlista til að tryggja það að það sé alltaf full útleiga. Húsnæðið okkar er með um 98% nýtingu. Og það má ekkert minna vera. Umsjón fasteigna hefur tvo daga til að yfirfara íbúðir á milli leigutaka. Ef hún er ekki í lagi þarf að bretta upp ermar og kippa því í liðinn en annars standa íbúðir aldrei auðar lengur en í tvo daga. Módelið verður að vera svona. Svo skiptir staðsetningin auðvitað lykilmáli.“ Í núverandi árferði getur reynst erfitt að byggja þar sem FS er að sumu leyti í öfugri hagsveiflu við hagkerfið. Þannig var bygging stúdentagarða við Sæmundargötu, gegnt höfuðstöðvum Alvogen í Vatnsmýri, ein fyrsta stórframkvæmdin sem ráðist var í eftir hrun.

„Það er eiginlega afleitt að byggja stúdentagarða í þenslu. Uppbygging Sæmundargötunnar eftir hrun var alveg á besta tíma. Þá voru margir sem vildu koma. Þegar verktakar hafa úr mörgum verkefnum að velja þá er framlegðin af því að byggja stúdentagarð mjög lítil. En einmitt núna erum við að leggja af stað í mjög stóra byggingu því við gátum ekki stoppað. Neyðin á húsnæðismarkaði er svo mikil,“ segir Guðrún, en þegar ég spyr hana um hvaða verkefni hafi gengið erfiðlega nefnir hún umdeilda byggingarreglugerð sem hafi á sínum tíma staðið FS fyrir þrifum. FS byggir nú undir nýjum lögum um almennar íbúðir, lögum sem voru sett 2016.

„Það er bara búið að ramma inn hvað svona húsnæði má kosta. Okkar slagur núna var að finna verktaka sem voru tilbúnir að koma að þessu með okkur og spreyta sig á því að ná fermetraverðinu undir þetta þak. Tilgangur laganna er að það komi inn á markaðinn húsnæði sem lágtekjuhópar ráði við,“ segir Guðrún. „Við náðum því en það var ekki létt. Við fórum tvær umferðir en það sem hjálpar okkur er auðvitað stærðarhagkvæmnin. Við erum að byggja rosalega stóran garð.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .