Fjármálablaðið Financial Times fjallar um rafræna íbúakosningu Reykjavíkurborgar sem haldin var á dögunum í ítarlegri grein á vefsíðu sinni. Kerfið á bak við íbúakosninguna er sérstaklega skoðað, en það er sagt henta einstaklega vel að prófa slíkar lausnir í 123 þúsund manna samfélagi.

Í greininni er hugmyndin rakin til kosningabaráttu Jóns Gnarrs fyrir betri Reykjavík, en hún er jafnframt tengd aðferðum víða um heim til að fá kjósendur til að taka aukna þátttöku og ábyrgð á ákvörðunum stjórnvalda.

Vísar greinin þar til landa eins og Ástralíu, Skotlands, Wales, Noregs, Möltu en síðast en ekki síst Eistlands, þar sem sjö tillögur almennings í gegnum slík kerfi hafa orðið að landslögum.

Í greininni er rætt við Jón Gnarr sem segir þó að tækni geti ekki leyst allan vanda, enda hafi hann orðið fyrir vonbrigðum með litla þátttöku í kosningunum.

Halldór Auðar Svansson borgarfulltrúi Pírata er einnig tekinn tali, en hann segir að umræðuvettvangurinn í kringum tillögurnar geti oft orðið „klikkaður.“ Þó er sérstaklega nefnt dæmið um þegar gatan Bratthöfði var endurnefnd Svarthöfði eftir slíka kosningu.

Því hafi þurft að setja inn gæðastjórnun til að sía út klikkaðar hugmyndir, en Róbert Bjarnason framkvæmdastjóri fyrirtækisins á bak við hugbúnaðinn segir að einungis hafi þurft í örfá skipti að fjarlægja óviðeigandi tillögur.

Samtökin sem að baki íbúakosningunni standa, eru að mestu fjármögnuð af Reykjavíkurborg og Evrópusambandinu, en kerfið hefur verið notað til að leyfa íbúum hverfa til að forgangsraða viðhalds og innviðaverkefnum, sem og nemendum til að ákveða námsefni sitt.

Jafnframt hafi flestir flokkar nýtt kerfið í kosningabaráttu sinni til að leyfa íbúum að tjá sig um stefnumál sín og koma með tillögur að nýjum.