Hampiðjan er í fremstu röð í heiminum þegar kemur að bæði umfangi og tæknilegri þróun veiðarfæra, og er með starfsemi í 14 löndum um allan heim. Hjörtur Erlendsson, forstjóri félagsins, segir ýmsar skýringar á því.

Eftir jafnan en hægan vöxt á fyrri hluta 20. aldarinnar hafi veiðarfæraiðnaði vaxið fiskur um hrygg hér á landi í kjölfar Þorskastríðanna og miklum uppgangi fylgt mikil eftirspurn eftir fullkomnari veiðarfærum.

„Ástæðan fyrir því að við höfum náð lengra en aðrir er þessi mikla tæknivæðing sem varð hér á Íslandi og hvað markaðurinn stækkaði skyndilega þegar landhelgin var færð út. Þetta byrjaði náttúrlega mjög smátt. Í byrjun síðustu aldar voru bátarnir smáir og náðu mjög skammt út fyrir landsteinana. Landhelgin var þrjár mílur og fór síðan í tólf. Þetta byrjar síðan að breytast gríðarlega þegar landhelgin færist í 50 og loks 200 mílur. Með því ýtum við í raun Bretum, Spánverjum og Portúgölum í burtu, en áður höfðu þeir verið að koma hingað og veiða fyrir utan landhelgina.“

Erlendu skipin höfðu fengið sín veiðarfæri frá þeim bæjum sem gert var út frá erlendis, en þegar Íslendingar tóku yfir allar veiðar við Íslandsstrendur keyptu þeir sín veiðarfæri hér á landi. „Á þessum árum stóð Hampiðjan mjög framarlega tæknilega séð miðað við önnur fyrirtæki í Evrópu því fjárfest hafði verið í nýjum og fullkomnum framleiðslutækjum í kring um 1970. Umbreytingin var því mun hraðari hér.“

Annar stór áhrifaþáttur var svo sóknarmarkskerfið svokallaða, sem fól í sér að aðeins mátti veiða vissa daga á ári. Það leiddi til þess að allt kapp var lagt á að veiða eins mikið og hægt var, á eins stuttum tíma og hægt var, og því fylgdi gríðarleg offjárfesting. „Það var bara einn allsherjarkvóti og síðan bara kepptust allir við að veiða og ná í eins stóran skerf af leyfilegum afla og hægt var. Menn þurftu því að hafa það besta af öllu: gott skip, besta tækjabúnaðinn, mjög góð veiðarfæri, og góða skipstjórnarmenn, til að geta hámarkað aflann,“ segir Hjörtur, og bætir við að Íslendingar hafi þar að auki alltaf verið frekar tæknisinnaðir, og menntunarstig hér sé hátt. Sem dæmi sé Ísland eina landið með formlegt nám í netagerð.

Sóknarmarkið var síðar lagt af og aflamark tekið upp í staðinn, þar sem takmörk eru sett á aflamagn í stað sóknardaga, og með því komst meira jafnvægi á greinina. Hin mikla tæknivæðing íslensks sjávarútvegs, og sérþekkingin í hönnun og framleiðslu veiðarfæra, var hinsvegar komin til að vera. „Síðan þegar aflamarkið kemur byrja menn að hagræða. Ég held að togarafjöldinn hafi farið í um 140 skip þegar mest var, en í dag erum við kannski með um 40 stór togveiðiskip.“

Nánar er rætt við Hjört í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .