Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir það vera með hreinum ólíkindum að stjórn og stjórnendur Icelandair fái að stýra félaginu óáreittir í krafti eftirlaunasjóða almennings, í uppfærslu sem hann birti á Facebook.

„Í ljósi þess að stjórnendur félagsins hafa nær fullt hús stiga þegar kemur að röngum ákvörðunum sem hafa skaðað félagið og stöðu þess undanfarin ár. Ber þar að nefna hvernig haldið hefur verið á málum gagnvart Boeing, breytingar á leiðakerfum, kaup félagsins á ríkisflugfélagi Grænhöfðaeyja, viðbrögð við samkeppni á einum mesta uppgangstíma flugsögunnar, klúðrið og spillingin í kringum Lindarvatn sem byggir hótelið á Landsímareitnum og svo ömurlega framkomu stjórnenda og yfirlýsingar í garð starfsfólks," segir Ragnar Þór.

Hann spyr jafnframt hvernig í veröldinni standi á því að hluthafar geti, sem í þessu tilfelli eru lífeyrissjóðirnir stærstir, leyft þessu að viðgangast án þess að aðhafast nokkuð.

„Ég er hræddur um að virkir eigendur og hluthafar í venjulegum fyrirtækjum væru fyrir löngu búnir að grípa inn í og gera nauðsynlegar breytingar ef viðlíka stjórnleysi ríkti og gerir hjá Icelandair. Stjórnendur Icelandair starfa óáreittir í skjóli lífeyrissjóðanna sem fara með almannafé og við það getum við ekki unað lengur. Að því sögðu skora ég á lífeyrissjóðina að krefjast hluthafafundar, tafarlaust, og gera nauðsynlegar breytingar á stjórn félagsins svo einhver raunverulegur möguleiki sé á að bjarga félaginu svo sátt ríki þar um."

„Ég vil að lokum nota tækifærið og þakka forstjóra Icelandair fyrir að sameina verkalýðshreyfinguna í eina kraftmikla heild sem sækir nú fram sameinuð og aldrei sterkari.“

Það er með hreinum ólíkindum að stjórn og stjórnendur Icelandair fái að stýra félaginu óáreittir í krafti...

Posted by Ragnar Þór Ingólfsson on Friday, 17 July 2020