Umhverfis- og samgöngunefnd þingsins íhugar nú hvort rétt sé að taka til skoðunar lagaákvæði sem skyldar Íslandspóst (ÍSP) til að bjóða sama verð á alþjónustusendingum um land allt. Nefndin fundaði með stjórnendum, eftirlitsstjórnvöldum og hluta hagsmunaaðila í fyrradag og verður fundum fram haldið á morgun.

Á vef Viðskiptablaðsins fyrir rétt rúmri viku var rætt við eigendur flutningafyrirtækja á landsbyggðinni um það hvaða áhrif ný lög um póstþjónustu hefðu haft á rekstur félaga þeirra. Samkvæmt lögunum er ÍSP skylt að bjóða alþjónustu sína, það er sendingar undir 10 kílógrömmum, á sama verði um land allt en á sama tíma skal gjaldskrá taka mið af raunkostnaði þjónustunnar að viðbættum hæfilegum hagnaði.

Þessi tvö skilyrði virðast nokkuð ósamþættanleg og leysti ÍSP vandann með því að lækka verð á landsbyggðinni niður á verð höfuðborgarsvæðisins. Mismuninn, sem var áætlaður 490 milljónir króna á síðasta ári, vill félagið fá greiddan úr ríkissjóði. Umrædd breyting, um eitt land, eitt verð, á rætur sínar að rekja til breytingartillögu fyrrnefndrar umhverfis- og samgöngunefndar.

Þings eða ráðuneytis?

Á fund nefndarinnar mættu, auk ÍSP, Póst- og fjarskiptastofnun, Samkeppniseftirlitið og Samtök verslunar og þjónustu. Fundað verður með Félagi atvinnurekenda og samgönguog sveitarstjórnarráðuneytinu áður en vikan er á enda. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að í máli fundarmanna hafi komið fram að rót vanda Póstsins á þessum stigum væri umrætt lagaákvæði. Innan nefndarinnar eru skiptar skoðanir um hvort og hvað skuli til bragðs taka. Hluti nefndarinnar vill breyta ákvæðinu í sömu mynd og það var í upphaflegu frumvarpi en aðrir nefndarmenn telja rétt að sú breytingatillaga komi frá ráðherra málaflokksins.

Rök hafa verið færð fyrir því að félagið hafi ekki starfað í samræmi við samkeppnisreglur. Enn fremur hafi aðilar, þeirra á meðal Eimskip, sent eftirlitsaðilum erindi þar sem athugasemdir eru gerðar við fyrrgreinda gjaldskrárbreytingar í ársbyrjun 2020. Við lækkun á verði landsbyggðarinnar færði ÍSP þau rök að meðalverð yfir landið allt myndi þýða að félagið myndi verðleggja sig út af markaði á höfuðborgarsvæðinu og því hefði þessi ákvörðun verið tekin.

Niðurstaðan varð sú að mesta lækkunin var rúm 35% og munurinn á verðskrá félagsins og til dæmis Eimskip og Samskip var á bilinu tvö- til þrefaldur. Að mati gagnrýnisradda er félagið með þessu að verðleggja þjónustu sína á sumum svæðum undir kostnaðarverði en slíkt gangi ekki upp þar sem gjaldskráin þurfi að taka mið af „raunkostnaði, að viðbættum hæfilegum hagnaði“. Enn fremur hafi þau verð útilokað samkeppnisaðila félagsins af markaði með sendingar undir tíu kílógrömmum. Afkoma alþjónustunnar innanlands árið 2019, þá í gildistíð eldri laga og náði hún þá til sendinga upp að 20 kílógrömmum, var neikvæð um tæplega hálfan milljarð.

Fundaröð hjá stjórn

Undir lok árs 2019 fékk Pósturinn 250 milljóna króna bráðabirgðaframlag úr ríkissjóði fyrir að veita alþjónustu árið 2020. Það var gert með færslu úr varasjóði en ekki með heimild á fjárlögum eða fjáraukalögum líkt og lög um póstþjónustu gera ráð fyrir. Fundir stjórnarmanna með fjármála- og efnahagsráðherra annars vegar og forsætisráðherra hins vegar virtust hafa orðið til þess að höggva á hnút sem myndast hafði milli Póstsins og Póst- og fjarskiptastofnunar. Það mun síðan liggja fyrir kringum næstu mánaðamót hve mikið ÍSP telur sig þurfa fyrir að veita alþjónustuna miðað við óbreytt umhverfi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .