Kynnisferðir hafa óskað eftir svörum frá Sjúktryggingum Íslands (SÍ) um hvernig var staðið að útboði á samning um Covid-flutninga.

Sjúkratyggingar Íslands tilkynntu í síðustu viku um samning við Gray Line sem mun sinna flutningum fyrir Covid-smitaða einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu sem ekki þurfa á flutningi í sjúkrabíl að halda. Markmið samningsins er að létta álagi af slökkvuliði höfuðborgarsvæðisins sem annast sjúkraflutninga. SÍ auglýstu eftir farþegaflutningsaðila til viðræðna um samninginn í byrjun nóvember.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, að SÍ hafi ekki leitað eftir tilboðum frá öðrum aðilum en Gray Line. Þar að auki þykir Birni sérkennilegt að stjórnvöld hafi valið að semja við Gray Line en móðurfélagið Allrahanda GL var í greiðsluskjóli og héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í byrjun nóvember kröfu félagsins um staðfestingu á nauðsamningi. Beðið er eftir niðurstöðu Landsréttar í því máli.

Sjá einnig: Rýrðu stöðuna kröfuhöfum til tjóns

Björn telur að þarna séu SÍ mögulega að bæta Gray Line upp þar sem ákveðið var að semja við Kynnisferðir og Hópbíla um akstur á sóttkvíarhótel fyrr á árinu. Hvað þann samning varðar bendir Björn á að Kynnisferðir og Hópbílar eru einu fyrirtækin með samning við Isavia um akstur flugfarþega, sem gerir þeim kleift að taka við farþegum alveg upp við flugstöðina.

Uppfært kl. 11:40 : Viðskiptablaðinu hefur borist ábending að Sjúkratryggingar Íslands auglýstu eftir farþegaflutningsaðila til viðræna vegna Covid-smitaðra einstaklinga í byrjun nóvember.