Sasja Beslik, forstöðumaður sjálfbærra fjárfestinga hjá Bank J. Safra Sarasin í Sviss, segir fjármálaheiminn enn vera í miklu þroskaferli þegar kemur að ábyrgum fjárfestingum en hann var einn af farmsögumönnum á Viðskiptaþingi í síðustu viku.

Hann segir að líkt og samfélagið í heild sinni, verði greinin að átta sig á því hverju sé verið að berjast fyrir og hvers vegna. Sasja hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín, en meðal þeirra eru æðsta orða Svíakonungs fyrir framlag sitt til sænskrar umhverfis- og sjálfbærnisstefnu og Young Global Leader verðlaun World Economic Forum.

Átök sem upphaf

Það lá ekki alltaf beint fyrir að Sasja myndi láta mikið til sín taka á Norðurlöndunum. Hann kom nefnilega ekki til Svíþjóðar fyrr en hann var 18 ára og þá sem flóttamaður frá Bosníu. Eftir aðeins 2 ár í Svíþjóð hóf hann nám við Háskólann í Stokkhólmi, þar sem hann nam hagfræði og fjölmiðlafræði.

„Mér þótti þetta vera áhugaverð blanda. Ég vildi skilja heiminn með hjálp hagfræðinnar, en vildi einnig geta tjáð mig með hjálp fjölmiðlafræðinnar. Hins vegar varð ég nokkuð þreyttur á blaðamennsku eftir að ég útskrifaðist, því mig langaði ekki bara að fjalla um hlutina. Mig langaði að framkvæma.“

Eftir að hafa starfað sem blaðamaður á vegum Rauða krossins, fór hann árið 2000 að meta umhverfis- og samfélagsáhrif fyrir olíurisann BP. Meðal þeirra landa sem hann starfaði í voru Angóla, Georgía og Nigería. Árið 2003 tók hann svo fyrsta skrefið inn í fjármálaheiminn, þegar hann fór að vinna við að greina samfélagslega ábyrgar fjárfestingar hjá banka í Stokkhólmi sem þá var í eigu ABN Amro.

Árið 2009 fór Sasja til Nordea þar sem hann gegndi stjórnunarstöðum fram til ársins 2019. Hjá Nordea fór hann í mikla stefnumótun þegar kom að fjárfestingarstefnu sjóða, ásamt því sem hann setti nýja sjóði á fót sem gerðu strangar kröfur þegar kemur að umhverfismálum, samfélagslegri ábyrgð og stjórnarháttum.

Ávöxtun ekki fórnað

Samkvæmt Sasja snúast ábyrgar fjárfestingar um almenna skynsemi. „UFS aðferðir gefa fjárfestum skýrari sýn, enda er horft á heiminn í víðara samhengi og allir hagaðilar eru teknir inn í myndina. Fjárfestar sem taka þetta alvarlega fá betri skilning á fjárfestingum sínum og hvar tækifærin og hætturnar liggja.“ Hann segir einn algengasta misskilninginn vera að fórna þurfi ávöxtun. Þvert á móti sýni flestir mælikvarðar að ábyrgar fjárfestingar séu arðbærari, sér í lagi ef tekið er tillit til áhættu.

Þó að mikið hafi gerst á áratugnum sem nú er að líða undir lok, eru enn stórar áskoranir í þessum málaflokki. „Sjálfbærir fjárfestingakostir eru enn af skornum skammti og mikilvægt er að UFS geti orðið hluti af öllum fjárfestingum í framtíðinni. Einnig þarf að hlúa betur að markmiðum fjárfestinganna. Það getur verið óljóst hvað þú ert að fá þegar þú kaupir í einhverjum UFS sjóð. Jú, þú sérð ef til vill hverjar stærstu eignirnar eru og ávöxtun síðustu ára, en ég tel að næsta skref sé að sýna hvað þú sért að fá umfram bara ávöxtun. Hvaða áhrif hefur sjóðurinn á heiminn? Eins og er getur enginn virkilega skýrt það fyrir kúnnum.“

Nánar er fjallað um málið í sérblaði um Viðskiptaþing sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .