Í fjármálaáætlun til ársins 2022 hafði verið stefnt að því að færa gistiþjónustu og aðra ferðaþjónustutengda starfsemi úr neðra þrepi í almennt þrep 1. júlí næstkomandi. Í fjárlagafrumvarpinu sem nú er verið að kynna er hins vegar gert ráð fyrir að færslan taki ekki gildi fyrr en í byrjun árs 2019. Þá er áætlað að efra þrepið lækki úr 24% í 22,5%.

Þetta er þvert á það sem haft var eftir Benedikt Jóhannessyni fjármálaráðherra í fréttum RÚV sem Viðskiptablaðið fjallaði um í morgun, en á fundinum í morgun sagði hann að ákvörðunin um frestun hafi verið tekin til að svara gagnrýnisröddum úr ferðaþjónustunni sem sagt hafa hækkunina bera mjög brátt að og miðist við afkomutölur þegar vöxturinn var sem mestur 2014 og 2015.

Í kynningunni á nýju fjármálafrumvarpi kemur jafnframt fram að heildarafkoma ríkissjóðs á næsta ári er áætluð að verði 44 milljarðar króna, sem er fjórum milljörðum hærra en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun.