Nauðsynlegt er að fyrirkomulag á landamærum fyrir sumarið liggi fyrir sem fyrst að mati framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF). Fregnir af bólusetningum séu jákvæðar og til þess fallnar að auka áhuga á ferðalögum en dugi skammt ef sóttkví við komu til landsins verði enn skilyrði.

Undir lok nýliðins árs hófst bólusetning forgangshópa, það er á íbúum hjúkrunarheimila og starfsfólki heilbrigðiskerfisins. Von er á meira bóluefni á komandi vikum og mánuðum en nokkuð er á reiki hvenær viðbúið er að hjarðónæmi þjóðarinnar náist. Tíðindin urðu nokkuð til þess að blása fólki von í brjóst enda félagslegar og efnahagslegar afleiðingar faraldursins gífurlegar.

Sú atvinnugrein sem farið hefur einna verst út úr faraldrinum er ferðaþjónustan en tekjulindir hennar þornuðu upp nánast yfir nótt. Fyrirtæki í greininni hafa verið upp á náð lánardrottna og aðgerðir stjórnvalda komin. Flest hafa fjármagnað dvalann með lántökum, frestað afborgunum eldri lána og starfsfólki verið sagt upp störfum í stórum stíl. Lánastofnanir veittu flestar heimild til frystingar afborgana strax síðasta vor en sá frestur er víðast hvar liðinn.

Þurfa þokkalega sumarvertíð

„Ég hef ekki frétt sérstaklega af því að lánveitendur séu farnir að ganga eftir greiðslu eða setja innheimtuaðgerðir af stað í stórum stíl. Miðað við fregnir af bólusetningu teldi ég eðlilegt, eftir allt sem gengið hefur á, að menn sýndu biðlund og skilning til að gefa félögum frest fram á sumar og haust til að reyna að rétta úr kútnum,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF.

Þótt bólusetningin sé ljóstýra í myrkrinu segir Jóhannes að höfuðmáli skipti að það liggi skýrt fyrir hvernig sóttvarnaaðgerðir verða á landamærunum í sumar og haust. Núgildandi reglur kveða á um skimun á landamærum, fimm daga sóttkví og síðari skimun að henni aflokinni. Þær reglur gilda til 1. febrúar næstkomandi en í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis hefur komið fram að hann telji óráðlegt að breyta því í flýti.

„Það sem rekstraraðilar hafa kallað eftir er að þeir hafi skýra sögu í höndunum til að segja um hver staðan verður hér í sumar. Það dugar lítið ef þjóðin öll verður bólusett en ef það verður enn gerð krafa um fimm daga sóttkví þá segir það sig sjálft að hingað kemur enginn,“ segir Jóhannes.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .