Fyrirtækið WuXi NextCODE, þar sem að Hannes Smárason er forstjóri, hefur nú lokið 240 milljóna Bandaríkjadala fjármögnun eða því sem nemur um 25 milljarða íslenskra króna miðað við gengi dagsins í dag að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Kjölfestufjárfestir í fjármögnuninni var Sequoia Capital China sem er útibú Sequoia Capital. Aðrir fjárfestar voru meðal annars Temasek, Yngfeng Capital og 3W Partners.

Árið 2013 kom Hannes Smárason að stofnun fyrirtækisins NextCode en það var stofnað sem dótturfélag Íslenskrar erfðagreiningar til að selja sjúkdómsgreiningar til lækna og sjúkrahúsa í Bandaríkjunum. Hann var ráðinn forstjóri sameinaðs fyrirtækis fyrr á þessu ári.

Jafnframt hafði hann yfirumsjón um það þegar félagið var sameinað WuXi Genome Center og félagið WuXi NextCode var stofnað. Gerðist það í kjölfar þess að félagið WuXi AppTec keypti NextCODE árið 2015 á 8,5 milljarða íslenskra króna, en bæði félögin voru í sams konar rekstri. Félagið er nú með starfsemi í Shanghai í Kína og Massachusetts í Bandaríkjunum fyrir utan starfsemi sína hér á landi.