Rekstraraðilar í ferðaþjónustu segja að ekki gangi nógu vel að sækja um og fá afgreidda tekjufallsstyrki sem og þau segja ekkert bóla á viðspyrnustyrknum sem stjórnvöld hafa lofað vegna ástandsins sem skapast hefur vegna kórónuveirufaraldursins.

Þetta segja rekstraraðilarnir í erindi til efnahags- og viðskiptanefndar sem þeir skrifa undir formerkjum samstöðuhóps einyrkja og lítilla fyrirtækja í ferðaþjónustu, þar þeir segja m.a. afhendingu tekjufallsstyrkjanna fasta hjá Skattinum.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hafa stjórnvöld sett af stað ýmis konar styrkjakerfi til stuðnings fyrirtækjum sem hafa farið illa út úr samkomutakmörkunum vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar sem veldur Covid 19 sjúkdómnum. Bréfritarar segja þó að illa gangi að koma styrkjunum á og fyrir fyrirtækin að sækja um þá.

„Margir eru að lenda í því að geta ekki sótt um þar sem það eru tæknilegir gallar í kerfinu, síður birtast ekki, ekki hægt að fylla inn í reiti og það hægist og hægist á afhendingu styrkjanna og þannig týnist tíminn, hann bara líður og bíður eftir engum og það að rekstaraðilar fái styrkinn afhentan dregst á langinn,“ segir meðal annars í bréfinu en þar segja þau rekstraraðila mæta pirringi hjá starfsmönnum stofnuninni þegar spurst er fyrir um málið.

„Skatturinn síðan svarar síðan fólki sem hefur jafnvel verið að basla með fyrirtækin sín án innkomu frá því í mars 2020, að þau þar á bæ hafi allt að 2 mánuði til að afgreiða umsóknrna....og hvað? Á þetta sama fólk að bíða þá jafnvel fram í mars/apríl 2021 eftir því að fá aðstoð? Hér þarf að taka á málunum. Eftir stóru loforðin um að tekjufallsstyrkir skiluðu sér 10. desember og svo fyrir jól og síðan á nokkrum dögum, þá eru þeir enn undir lok janúarmánaðar 2021 ekki komnir í hús hjá meirihluta rekstaraðila.“

Önnur atriði sem bréfritarar nefna eru viðspyrnustyrkirnir sem þeir segja fátt um svör um hvenær hægt verði að sækja um, og spyrja hvort þeir hafi ekki átt að komast í afgreiðslu nú í janúar.

„Með þessu áframhaldi verður ekkert úr þessari viðspyrnu, peningarnir eiga ekki eftir að nýtast og fyrirtækin brenna innan frá og verða ekki tilbúin til þess að takast á við framhaldið. Það að þessir styrkir séu ekki komnir í gagnið er hrein og klár peningasóun því róðurinn þyngist jafnt og þétt og bráðum verður ekkert eftir til að bjarga. Hver mínúta er farin að skipta stórmáli, þetta er lífróður!,“ segir í bréfinu.

„Hlutabótaleiðin hefur reddað salti í grautinn fyrir suma eigendur og gert það að verkum að þeir hafa getað staðið nokkurn veginn við afborganir af eigin lánum og borgað hita og rafmagn og framfleytt fjölskyldunni...en það skal halda því til haga að hlutabótaleiðin gerir í raun ekkert annað en þetta, hún gerir ekkert fyrir rekstur fyrirtækja og félaga.“

Einnig er sú staða sögð mjög alvarleg að ekkert hafi heyrst með afborganir af lánum úr ferðamálasjóði en fyrsta afborgun átti að vera 1. mars næstkomandi þegar bréfið va ritað. Í morgun kom þó sú tilkynning frá Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur ráðherra ferðamála að gjalddögum þeirra afborgana hefði verið frestað til 1. desember næstkomandi.

Í bréfinu er svo einnig spurt út í stuðningslánin, sem þó eigi að koma seinna til afborgunar, en of snemma að mati bréfritara, þar sem þau segja einnig að gera þurfi gagngerar breytingar svo framkvæmd afborgananna verði gerlagar því afborgunarskilmálar þeirra séu of brattir.

Loks segja bréfritarar að skilmálar stuðningslánanna um að 10% af rekstrarkostnaði fyrirtækjanna verði að vera laun mismuni ferðaskrifstofum og fyrirtækjum í afþreyingu og kalla þau eftir því að skilyrðin verði endurskoðuð.

Í lok bréfsins er því spurt:

  • 1. Afhverju er ekki meira púður sett í það að koma tekjufallsstyrkjunum út til rekstaraðila?
  • 2. Afhverju bólar ekkert á viðspyrnustyrkjunum?
  • 3. Afhverju hefur ekkert komið fram er varðar afborganir og lagfæringar á lánum úr ferðamálasjóði og stuðningslánum?

Undir bréfið skrifa þau:

Reynir Már Sigurvinsson, framkvæmdastjóri Star Travel - ÞúsundStjörnur ehf, Akureyri; Laufey Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri og eigandi Fallastakks/ Glacier Journey, Höfn; Jóna Fanney Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri og eigandi Eldhúsferða Cucina Travel ehf, Húnavatnshreppi.