Í upphafi mánaðar voru meginvextir Seðlabankans – betur þekktir sem stýrivextir – lækkaðir í 3,25%, og hafa ekki verið lægri frá því að verðbólgumarkmið og núverandi umgjörð Seðlabankans voru lögfest árið 2001.

Vextir eru að sama skapi í sögulegu lágmarki, hvort sem horft er til nafn- eða raunvaxta. Þegar þetta er skrifað er ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisskuldabréfa rétt tæp 3,5% út vaxtarófið – sem er kylliflatt – og verðtryggð ríkisskuldabréf til 6 og 10 ára með tæpa 0,7% vexti, en RIKS 21, sem er til eins og hálfs árs, er að vísu með heldur hærri 1,14% vexti.

Verðbólga hefur enn fremur verið sögulega lág fyrir þetta stig hagsveiflunnar og því er nú spáð af greiningaraðilum, og við því búist af markaðsaðilum, fyrirtækjum og heimilum, að hún hjaðni enn frekar á næstu misserum. 10 ára verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hefur að sama skapi lækkað mikið það sem af er ári, og mælist nú 2,7%.

Eins og sovésk matvöruverslun
Viðmælendur Viðskiptablaðsins herma hinsvegar að lægri vextir hafi skilað sér takmarkað til fyrirtækja – og þá helst smárra og meðalstórra, sem ekki hafa um aðra fjármögnun að velja en frá bönkunum.

Aðstæður á skuldabréfamarkaði séu mjög hagfelldar þeim sem þangað geta leitað til að fjármagna sig, svo sem stærri fyrirtækjum, auk þess sem erlent fjármagn sé mun ódýrara, geti menn nálgast það milliliðalaust.

Þau minni séu hins vegar nær alfarið upp á bankana komin fyrir fjármögnun, og hafi ekki fengið að njóta stýrivaxtalækkana upp að sama marki og aðrir vextir. Framboð lánsfjár hafi auk þess dregist verulega saman, en hrein ný útlán innlánastofnana til fyrirtækja drógust saman um rúman helming á fyrstu átta mánuðum ársins.

Agnar Tómas Möller, forstöðumaður skuldabréfa hjá Júpíter, hefur eftir góðkunningja sínum á Twitter nýlega að fjármálakerfið sé eins og matvöruverslun í Sovétríkjunum sálugu: „Allt rosa ódýrt en engar vörur í hillunum“, og vísar þar til hinna sögulega lágu vaxta en á sama tíma fátæklegu framboði lánsfjár.

Regluverk og sértækir skattar þrengja að bönkunum
Ástæður þessa liggja að miklu leyti í ólíku umhverfi bankanna og annarra lánveitenda. Regluverk banka hefur verið hert verulega á árunum eftir hrun, og sértæk skattlagning á þá aukin. Meðal annars eru gerðar bæði eigin- og lausafjárkröfur til þeirra, sem viðmælendur blaðsins segja vera farnar að þrengja þónokkuð að útlánagetu þeirra.

Eiginfjárkröfur voru hækkaðar í maí á þessu ári, og til stendur að þær hækki á ný þann 1. febrúar næstkomandi, en sú ákvörðun var tekin 1. febrúar síðastliðinn. Eigið fé er almennt dýrari fjármögnun fyrir banka en skuldir, og arðsemi íslensku bankanna hefur þar að auki verið talin heldur slöpp síðustu misseri, svo ljóst er að kröfurnar munu halda aftur af vaxtalækkunum og útlánavexti bankanna.

Þrátt fyrir það var tilkynnt í upphafi mánaðar, daginn fyrir stýrivaxtalækkunina, að áform um hækkunina stæðu óhögguð. Þykir ýmsum það skjóta skökku við á sama tíma og reynt sé að örva útlán þeirra og þar með hagkerfið í heild með lækkun stýrivaxta.

Þá var það tilkynnt í sumar að lækkun svokallaðs bankaskatts, sem til hefur staðið um nokkurt skeið, verði frestað um ár, og verði síðan framkvæmd í áföngum næstu árin. Skatturinn leggst á allar skuldir banka og nemur 0,376%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .