Airbus hefur afhent fyrsta A350-1000 breiðþotuna til fyrsta viðskiptavinarins, Quatar Airways, en um er að ræða fyrstu af 37 vélum sem flugfélagið hefur pantað.

Quatar Airways er stærsti viðskiptavinur Airbus þegar kemur að A350 flugvélunum, en félagið hefur í heildina pantað 76 slíkar flugvélar. Jafnframt er það stærsti viðskiptavinurinn þegar kemur að A350-1000 breiðþotunum, sem eru um 7 metrum lengri en A350-900 vélarnar sem félagið á þegar 20 eintök af.

Jafnframt er farþegarýmið um 40% stærra en í systurgerðinni, sem í tilviki Quatar bætir við 44 nýjum sætum. Í vélinni verða jafnframt í fyrsta sinn nýgerð af business class sætum sem eru tvöföld, en þau ganga undir nafninu Qsuite.

Afhendingin fór fram í Toulouse Frakklandi og sagði forstjóri félagsins, Akbar Al Baker vélina tryggja forystu flugfélagsins.

„Quatar Airlines heimtar ávalt það besta fyrir sína viðskiptavini, svo það er rétt að við séum fyrsta flugfélagið í heiminum til að fljúga Airbus A350-1000 vélinni.“