Kosningarnar í Noregi hófust á sunnudag, og standa jafnframt yfir í dag en mjótt er á mununum milli tveggja helstu flokkablokkanna og erfitt að segja til um úrslitin. Er um að ræða naumustu kosningar í landinu í áratugi, en vinstriblokkin hefur séð forystuna sem hún hafði snemma í kosningabaráttunni hverfa á sama tíma og efnahagur landsins hefur batnað frá hruni í olíuverði fyrir þremur árum síðan.

Ef ríkisstjórn Ernu Solberg forsætisráðherra frá Hægriflokknum vinnur yrði það fyrsta hægriríkisstjórnin sem stæði í tvö kjörtímabil. Gæti jafnvel niðurstaðan orðið sú að flokkur hennar myndi ná því í fyrsta skipti í 90 ár að verða stærri en Verkamannaflokkurinn í landinu. Átta flokkar eru nú á norska stórþinginu og gæti það skipt sköpum hvaða flokkar ná 4% lágmarkinu til að fá jöfnunarsæti, en hér á landi hefur flokkum á Alþingi nú fjölgað í 6 eftir að sams konar 5% lágmark var tekið upp.

Milljónamæringur sem leiðir Verkamannaflokkinn

Samkvæmt nýjustu skoðanakönnuninni sem FT vísar í stefnir í að hægriflokkarnir geti fengið 85 sæti, meðan vinstriflokkarnir, að Græningjum meðtöldum, fengju 84. Fyrir einungis tveimur árum síðan var Verkamannaflokkurinn, undir forystu milljónamæringsins Jonas Gahr Store, með yfir 40% stuðning í skoðanakönnunum eftir að 50 þúsund störf höfðu horfið í kjölfar lækkandi olíuverðs.

En nú er atvinnuleysið komið niður í 4,4%, svo flokkurinn hefur þurft að einblína á fjárfestingu í skólum og sjúkrahúsum. Jafnframt hefur Store verið gagnrýndur mikið og sagður vera úr takti við almenning, en hann er menntaður í París og Harvard. Einnig hefur verið gagnrýnt að hann fjárfesti í vogunarsjóðum sem eiga fyrirtæki sem framleiða íhluti í kjarnorkuvopn.

Framfaraflokkurinn, sem er í ríkisstjórnarsamstarfinu með Hægriflokknum, er líklegur til að halda stöðu sinni sem þriðji stærsti flokkur landsins þó hann gæti misst nokkur sæti. Hefur aðalframlag þeirra til kosningabaráttunnar verið að landið skuli ekki endurtaka mistök Svíþjóðar í stefnu í innflytjendamálum og illa heppnaðri aðlögun innflytjenda.

Líklegt er þó að úrslitin ráðist af því hvernig nokkrir litlum flokkum reiðir af, en sérhver flokkur sem fær meira en 4% atkvæða fær jöfnunarsæti, en þau eru 19 talsins, eitt í hverri sýslu. Eru nú 2 vinstri flokkar og tveir hægriflokkar að berjast fyrir því að komast yfir markið, þar með talið Græningjar sem vilja að Noregur, stærsta olíuframleiðsluríki vestur Evrópu, hætti allri olíuframleiðslu innan 15 ára. Aðrir má nefna Sósíalíska vinstriflokkinn, Frjálslyndaflokkinn (Venstre), Miðflokkinn og Kristilega demókrataflokkinn.