Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, varð í morgun fyrsta konan til að ná kjöri sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Kosningarnar fóru fram á landsþingi sambandsins sem nú fer fram í Hofi á Akureyri. Tveir voru í framboði, Aldís og Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ. Aldís hlaut 91 atkvæði en Gunnar 49.

Í tilkynningu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga segir að Aldís sé fyrsta konan sem kjörin sé formaður sambandsins. Aldís tekur við af Halldóri Halldórssyni, fyrrverandi oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík en hann hafði gegnt formennsku í 12 ár.

Aldís varð bæjarstjóri í Hveragerði árið 2006 og var hún jafnframt fyrsta konan til að gegna því embætti. Áður hafði hún leitt lista Sjálfstæðisflokksins í tvennum sveitarstjórnarkosningum eða frá árinu 1998.

Á landsþinginu var einnig kosið í stjórn sambandsins og er hún nú svona skipuð:

  • Reykjavíkurborg: Heiða Björg Hilmisdóttir ( S ), Þórdís Lóa Þórhallsdóttir ( C ), Eyþór Arnalds ( D ).
  • Suðvesturkjördæmi : Gunnar Einarsson, Garðabær ( D ), Guðmundur Ari Sigurjónsson, Seltjarnarnesbær ( S ).
  • Norðvesturkjördæmi: Rakel Óskarsdóttir, Akraneskaupstaður ( D ), Bjarni Jónsson, Svf . Skagafjörður ( V ).
  • Norðausturkjördæmi: Kristján Þór Magnússon, Norðurþing ( D ), Jón Björn Hákonarson, Fjarðabyggð ( B ).
  • Suðurkjördæmi: Aldís Hafsteinsdóttir, Hveragerðisbær  ( D ), Ásgerður K. Gylfadóttir, svf . Hornafjörður ( B ).