Stjórnvöld í Grikklandi greindu í dag frá áætlunum um hefja útgáfu á ríkisskuldabréfum eftir þriggja ára hlé. Bréfin sem gefin verða út, eru á gjalddaga árið 2022 og mun sala þeirra hefjast á morgun. Auk útboðsins hyggjast stjórnvöld endurfjármagna skuldir sem eru á gjalddaga árið 2019 með því að bjóða eigendum bréfanna að fá bréfin greidd upp.

Samkvæmt frétt Bloomberg vonast ríkisstjórn Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, til þess að skuldabréfaútgáfan muni greiða götuna í áttina að því að enda núverandi björgunaraðgerðir gagnvart landinu sem enda árið 2018. Þá er einnig vonast til þess að útgáfan muni hjálpa til við að uppfylla 19 milljarða evra fjármögnunarþörf landsins.

Síðastliðinn föstudag uppfærði lánshæfisfyrirtækið Standard & Poor's horfur í skuldamálum Grikklands úr stöðugum í jákvæðar. Bindur lánshæfismatsfyrirtækið vonir við að Grikkland muni fá frekari skuldaafléttingu frá lánardrottnum sínum á næsta ári.