Samkvæmt tölum Þjóðskrár Íslands voru 30,3% af öllum kaupsamningum á síðasta ári um fyrstu eign og hefur hlutfall fyrstu kaupenda aldrei verið hærra.

Hlutfall fyrstu kaupenda hefur farið stigvaxandi frá árinu 2009, þegar hlutfall fyrstu kaupenda var 7,5%, þrátt fyrir að fasteignaverð hafi hækkað mikið að raunvirði yfir tímabilið.

Í frétt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) kemur fram að heildarfjöldi kaupsamninga hafi verið með mesta móti frá því fyrir hrun og því hafi fjöldi fyrstu kaupenda aukist enn meira. Árið 2020 voru 3.777 kaupsamningar sem teljast til fyrstu kaupa samanborið við 3.089 árið áður sem er 22% aukning á milli ára.

Lágir vextir leiða til lægri greiðslubyrði

Fram kemur að undanfarið hafi lágir vextir vegið upp á móti verðhækkunum þannig að greiðslubyrði þeirra sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð hefur lækkað töluvert á undanförnum árum. Aftur á móti þurfi meira eigið fé til þess að eiga efni á útborgun eftir því sem fasteignaverð hækkar, en það virðist ekki koma að sök um þessar mundir.

Þá segir að aðgerðir stjórnvalda hafi auðveldað ungu fólki og tekjulágum að eignast íbúðir sem án efa hafi ýtt undir hækkun hlutfalls fyrstu kaupenda. Þar er nefnt sem dæmi skattfrjáls ráðstöfun á séreignarsparnaði sem auðveldar fólki að byggja upp eigið fé til útborgunar.

Hagdeild HMS telur líklegt að í einhverjum tilfellum nýti foreldrar sér hagstæð kjör og aukið veðrými eftir því sem fasteignir hækka í verði, og taki jafnvel lán og styðji börn sín við kaup á fyrstu eign. Aðgengi að fjármagni hafi að sama skapi verið mjög gott, ásamt lækkun vaxta, sem styðji við þessa fjölgun.