Valdís Arnórsdóttir, stjórnandi í alþjóðlegu mannauðsteymi hjá Marel, hefur leitt alþjóðlegt krísustjórnunarteymi fyrirtækisins í yfirstandandi heimsfaraldri. Hún segir faraldurinn hafa reynt á alla hlekki fyrirtækisins en að þau hafi verið vel í stakk búin til þess að takast á við áskoranirnar sem fylgdu. Teymið þurfti að huga að fjölmörgum praktískum lausnum vegna faraldursins en ekki síður að líðan starfsfólks. Þau sóttu reglulega endurgjöf til starfsfólks sem hefur hjálpað þeim að bregðast við ýmsum áskorunum, en endurgjöfin sýndi þeim jafnframt að starfsfólk Marel vill breytingar til framtíðar.

Snerti allar hliðar Marel

„Þegar faraldurinn brast á virkjuðum við alþjóðlega krísustjórnunarteymið í fyrsta skipti. Við höfðum undirbúið okkur og því áttum við til grunn að viðbragðsáætlun áður en faraldurinn skall á og hlutverkaskiptingin lá því að vissu leyti fyrir. Upphaflega virkjuðum við teymið eingöngu til þess að styðja við starfsstöð okkar í Kína, en á þeim tíma hafði vírusinn ekki náð til annarra landa. Við settum saman staðbundið viðbragðsteymi í Kína og lærðum jafnóðum af reynslunni og gátum slípað til samstarf alþjóðateymisins og viðbragðsteymisins í Kína. Veiran dreifði sér svo á skömmum tíma um heiminn og eftir því sem faraldurinn þróaðist settum við upp viðbragðsteymi á hverjum stað fyrir sig. Um miðjan mars höfðum við stofnað 15 viðbragðsteymi til að styðja við allar starfsstöðvar okkar og starfsfólk um heim allan," segir Valdís.

Það hefur reynst Marel sérstök áskorun í faraldrinum hve starfsstöðvarnar eru víða um heim og hversu fjölbreytt starfsemin er.

„Við erum með skrifstofufólk, sölu- og þjónustufólk sem þarf að komast til viðskiptavinarins, og síðast en ekki síst starfsfólk í framleiðslu sem getur eingöngu unnið á okkar starfsstöðvum. Faraldurinn snerti í raun allar hliðar fyrirtækisins, hann hafði áhrif á öll svæði í heiminum, á alla vöruflóruna okkar og alla starfsemina eins og hún leggur sig. Það kom sér því vel að vera að einhverju leyti undirbúin til þess að takast á við stöðuna. Við lærðum líka mikið á því að takast á við stöðuna í Kína í upphafi faraldurs og áttum því auðveldara með að bregðast við þegar veiran barst til Evrópu, þar sem stærstur hluti okkar starfsfólks er."

Ferðalög flókin áskorun

Um tvö þúsund starfsmenn Marel starfa við sölu og þjónustu og ferðast að jafnaði fyrir hönd fyrirtækisins og hefur það, eðli máls samkvæmt, reynst flókin áskorun í faraldrinum.

„Það þurfti að styðja við ferðalangana með ýmsum hætti, til dæmis með að komast á milli staða, tryggja að þau hefðu allan hlífðarbúnað og aðgengi að gistingu, sem var mjög erfitt á tímabili víða um heim. Það þarf þannig að huga að öllum skrefum ferðalagsins og tryggja öryggi starfsfólks í hverju skrefi. Þetta er ekki síst mikilvægt þegar starfsfólk ferðast á starfsstöð þar sem saman kemur starfsfólk frá mörgum mismunandi starfsstöðvum Marel. Ef það verður öryggisbrestur við þær aðstæður geta margar starfstöðvar fyrirtækisins verið útsettar fyrir smiti. Marel hefur undanfarin ár byggt upp víðfeðmt sölu- og þjónustunet sem nær til yfir 30 landa út um allan heim. Þetta kom sér mjög vel í faraldrinum þar sem við þurftum ekki að senda fólk á milli heimsálfa heldur gátum nýtt sölu- og þjónustunetið okkar og nýtt okkur það að vera nálægt okkar viðskiptavinum. Við höfum jafnframt leitað nýrra leiða til að vera til staðar fyrir viðskiptavini okkar. Starfsfólk okkar hefur til dæmis komið upp sólarhringsþjónustu til viðskiptavina og hafa einnig tekið í sína þjónustu stafrænar lausnir sem gera okkur kleift að veita þjónustuna án þess að ferðast. Þannig hefur faraldurinn flýtt fyrir þróun stafrænna lausna og breytt því hvernig við vinnum hlutina til frambúðar."

Kraftur í fyrirtækinu

„Ég fæ eiginlega gæsahúð þegar ég hugsa til þess hve miklu við höfum áorkað. Krafturinn í fyrirtækinu þegar fólk leggst á eitt er ólýsanlegur. Við erum rúmlega sjö þúsund sem störfum hjá Marel um allan heim og  samtakamátturinn hefur sýnt sig nú þegar á reynir. Áskoranirnar og samvinnan við að leysa þær hafa afhjúpað fyrir okkur sjálfum styrkleika okkar, það er hverju við getum áorkað þegar við leggjumst á eitt. Með samvinnu og lausnamiðuðu hugarfari náðum við að leggja okkar lóð á vogarskálarnar í því mikilvæga verkefni að halda einni mikilvægustu virðiskeðju heims gangandi í heimsfaraldri, matvælakeðjunni. Það verkefni hefur ekki verið auðvelt eða einfalt og við erum mjög stolt af okkar árangri. Við höfum að sjálfsögðu líka fundið veikleika okkar í þessu ástandi en þá er ekki síður mikilvægt að þekkja. Reynslan gefur okkur líka skýrari sýn á það hvernig við viljum þróast til framtíðar og það mun styrkja okkur og efla til lengri tíma litið," segir Valdís.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .