Dóms er að vænta á næstunni í máli Vínness ehf. gegn íslenska ríkinu þar sem félagið krefur ríkið um endurgreiðslu á rúmlega 250 milljónum króna, auk vaxta og dráttarvaxta, vegna fyrirkomulags skilagjalds hér á landi. Verði fallist á kröfur félagsins, og gjaldið þar með dæmt ólögmætt, gæti það haft í för með sér ríflega tólf milljarða kostnað sem félli á ríkið.

Skilagjaldið hefur verið látið renna til Endurvinnslunnar hf. Hluthafar þess eru meðal annars Ölgerðin, Coca-Cola á Íslandi og Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, með fimmtungshlut hvert, og Rio Tinto og Elkem með sjö prósenta hlut hvort félag. Ríkið á síðan sjálft tæp átján prósent. Samkvæmt fyrrnefndum lögum ber því að standa undir rekstri Endurvinnslunnar, sem hefur einkarétt til starfseminnar, en innifalið í gjaldinu er lögbundin hagnaðarskylda. Hækkun á gjaldinu hefur síðan jafnan komið til eftir beiðnir þess efnis frá félaginu.

Í stefnu Vínness er sagt að fyrirkomulag téðrar skattheimtu sé einsdæmi í íslenskri löggjöf og að það víki verulega frá þeim kröfum sem stjórnarskráin gerir til skattlagningar, jafnræðis og félagafrelsis. Fyrirkomulagið sé einnig til þess fallið að raska samkeppni enda njóti hluthafar félagsins, sem starfa á sama markaði, í reynd skattaafsláttar á sama gjaldi í formi arðgreiðslna frá Endurvinnslunni.

„Eins og Hæstiréttur hefur ítrekað slegið föstu felur skylda til að greiða gjald sem rennur til einkaréttarlegs félags, óháð vilja gjaldanda, eftir atvikum í sér inngrip í neikvætt félagafrelsi gjaldanda,“ segir í stefnunni. Slíkt þurfi að vera réttlætt með vísan til almannahagsmuna eða réttinda annarra. Álagning skilagjaldsins, í núverandi mynd, uppfylli ekki það skilyrði þar sem það miði meðal annars að því marki að standa undir rekstri einkahlutafélags og arðgreiðslum þess til eigenda sinna. Þá sé gjaldtakan ólögmæt með vísan til ákvæða EES-samningsins um ríkisaðstoð enda sé hún til þess fallin að raska samkeppni.

Samkvæmt lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúðum fyrir drykkjarvörur, sem eru að stofni til frá 1989, er heimilt að leggja skila- og umsýslugjald á innfluttar drykkjarvörur í einnota umbúðum. Samkvæmt ríkisreikningum síðustu ára hefur álagt gjald verið á þriðja milljarð króna ár hvert og samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs er fyrirhugað að álagt gjald verði um 3,8 milljarðar króna. Falli dómur ríkinu í óhag ættu aðrir gjaldendur að geta gert kröfu um endurgreiðslu þess.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .