Peningastefnunefnd Seðlabanka Evrópu virðist vera opin fyrir því að stíga frekari skref í átt að því að draga úr aðgerðum bankans til að örva hagkerfi evrusvæðisins. Samkvæmt fundargerð peningastefnunefndar frá síðasta fundi hennar í júní er þó talið líklegt að nefndin muni fara sér hægt í því að hverfa frá aðgerðum sínum af ótta við að valda óróa á mörkuðum. Reuters greinir frá.

Þar sem verðbólga á evrusvæðinu hefur hægt og bítandi verið að aukast er talið að seðlabankinn muni draga úr örvunaraðgerðum sínum sem hafa falist í 0% stýrivöxtum og magnbundinni íhlutun þar sem bankinn hefur keypt skuldabréf fyrir 2.300 milljónir evra.

Á síðasta fundi nefndarinnar var rætt um það að draga úr örvunaraðgerðunum en ekkert varð úr því í það skiptið þar sem aukinn hagvöxtur á svæðinu hefur ekki leitt til hærri verðbólgu. Verðbólga á evrusvæðinu í júní mældist 1,3% sem er 0,7 prósentustigum undir verðbólgumarkmiðum seðlabankans. Eftir fund peningastefnunefndar í júní, lagði Mario Draghi, bankastjóri Seðlabanka Evrópu, mikla áherslu á þolinmæði . Sagði hann að verðbólguþrýstingur hafi verið of lítill og það þyrfti að halda áfram eftirfylgni við efnahagsbatann með peningastefnunni.