Nú eru fimm ár liðin síðan fyrst var opnað fyrir fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, en hún var opnuð á fyrri hluta ársins 2012. Þeir sem tóku þátt í henni fengu á sínum tíma um fimmtungsafslátt af krónunum sem þeir fjárfestu fyrir hér á landi miðað við skráð gengi Seðlabankans, í stað þess að fjárfestingin yrði bundin til fimm ára.

Þetta þýðir að fyrstu fjárfestarnir geta nú losað um fjárfestingar sínar hér á landi, og hefur Fréttablaðið heimildir fyrir því að það gæti verið ástæðan fyrir þeirri veikingu krónunnar sem verið hefur síðustu daga. Þó segja heimildarmennirnir óvíst í hve miklum mæli það hafi átt sér stað, en um 123 milljónir evra, eða það sem þá samsvaraði 29,5 milljörðum króna miðað við útboðsgengi, komu til landsins í fjórum útboðum á fyrstu sex mánuðum ársins 2012.

Geta fjárfestarnir nú innleyst tugi milljarða gengishagnað ef þeir selja sig út núna. Jafnframt hefur blaðið heimildir fyrir því að Seðlabankinn hafi gripið inn í gjaldeyrismarkaðinn seint í fyrradag með kaupum á krónum fyrir rúman milljarð króna. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um þá hefur gengi krónunnar sveiflast nokkuð síðustu daga.