Á síðasta ári birti FATF, sem er alþjóðlegur fjármálaaðgerðahópur ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, skýrslu þar sem tiltekinn var 51 ágalli á umgjörð og framkvæmd í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hér á Íslandi. Samkvæmt fréttatilkynningu dómsmálaráðuneytisins hafa  hluthafandi  stjórnvöld unnið  að því að bregðast við athugasemdum FATF. Í lok september sl. hafi sex atriði staðið eftir sem talið er að gæti leitt til þess að umbætur Íslands varðandi aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka verði ekki taldar fullnægjandi, samkvæmt skýrslu FATF.

Fari svo fer Ísland á svokallaðan gráan lista yfir ríki þar sem aðgerðaáætlun er í farvegi. Verði það niðurstaðan muni íslensk stjórnvöld kappkosta að það verði aðeins til skamms tíma. Endanleg ákvörðun um hvort Ísland lendi á umræddum lista er í höndum fundar FATF sem fer fram um miðjan október, en á meðal landa sem má finna á listanum eru Afganistan og Írak.

Þau atriði sem ekki töldust uppfyllt í lok september en eru öll í vinnslu, eru eftirfarandi:

  1. Að stjórnvöld hafi ekki tímanlegan aðgang að áreiðanlegum upplýsingum um raunverulega eigendur.
  2. Ljúka þurfi innleiðingu á nýju upplýsingakerfi hjá skrifstofu fjármálagreininga lögreglu til að taka á móti tilkynningum um grunsamlegar færslur.
  3. Að starfsmannafjöldi miðað við umfang tilkynninga hjá skrifstofu fjármálagreininga lögreglu sé ófullnægjandi.
  4. Ljúka þurfi reglugerð, sem Alþingi þarf að veita lagastoð, um meðhöndlun og vörslur haldlagðra, kyrrsettra og upptekinna fjármuna.
  5. Eftirlitsaðilar þurfi að tryggja með vettvangsathugunum að tilkynningarskyldir aðila fari að lögum um frystingu fjármuna o.fl. nr. 64/2019.
  6. Innleiða þurfi í lög skilvirka yfirsýn yfir starfsemi almannaheillafélaga, sér í lagi hvað varðar þau almannaheillafélög sem geta verið viðkvæm fyrir misnotkun í tengslum við fjármögnun hryðjuverka. Tryggja þurfi að til staðar séu ferlar, aðferðir og mannauður til að hafa yfirsýn yfir þau almannaheillafélög sem gætu helst verið í hættu.

Í  tilkynningunni segir jafnframt að íslensk stjórnvöld hafi ásamt erlendum ráðgjöfum lagt mat á möguleg áhrif þess að Ísland lendi á listanum. Það sé samdóma álit þeirra að áhrifin verði óveruleg ef af verður og sé hvorki talið að sú niðurstaða hafi bein áhrif á almenning né fjármálastöðugleika á Íslandi. Þó gætu erlendir aðilar í viðskiptum við íslensk fyrirtæki, þá einkum fjármálafyrirtæki og tryggingafélög, þurft að kanna sjálfstætt hvort varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka séu nægilega tryggar.

„Þessi atriði sem eru talin standa út af snúa ekki beint að fjármálafyrirtækjunum hér á landi. Það er mikilvægur hluti af starfsemi fjármálafyrirtækja að tryggja að þessar varnir séu í lagi. Fyrirtækin eru í sífelldri skoðun og standa vel hvað það varðar.  Enda er mikilvægt fyrir viðskiptasambönd þeirra að sýna fram á að þessar varnir séu í lagi. Þess vegna er mikilvægt að allt kerfið standist þessar kröfur. Ég sé ekki betur en að stjórnvöld hafi brugðist hratt og vel við þessum athugasemdum og ég vona því að það verði ekki af því að Íslandi endi á þessum lista," segir Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .