Vegna ágalla á löggjöf gæti farið svo að 104 tonn af tollfrjálsum ostum frá ríkjum Evrópusambandsins verði ekki flutt inn á þessu ári eins og til stóð að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá Félagi atvinnurekenda.

Þegar Alþingi samþykkti búvörusamningana haustið 2016 var tekin ákvörðun um að leyfa innflutning á 210 tonnum af tollfrjálsum ostum strax á fyrsta ári gildistöku tollasamningsins við ESB, til að vega á móti almennri tollahækkun á ostum, sem búvörusamningurinn kvað á um. „Sú tollahækkun hefur tekið gildi, en vilji Alþingis um að flýta gildistöku tollkvóta fyrir svokallaða sérosta skilaði sér ekki í lagatextann,“ segir í tilkynningunni.

FA átelur vinnubrögð atvinnuvegaráðuneytisins í málinu og telur að ráðuneytið hefði átt að gera þinginu viðvart um gallann á löggjöfinni.

Sérostar eru ostar sem eru skráðir í samræmi við reglur um vernd afurðaheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinn­ar sérstöðu, til dæmis Parmesan eða Rochefort. FA segir að sú málamiðlun sem meirihluti atvinnuveganefndar beitti sér fyrir í tengslum við samþykkt búvörusamninganna 2016 hafi ekki eingöngu falið í sér hraða gildistöku tollkvóta fyrir sérostana, heldur að þeim skyldi úthlutað með hlutkesti í stað útboðs.

„Þessir ostar bera þannig ekki útboðsgjald og yrðu mun ódýrari fyrir vikið. Þetta klúður bitnar því bæði á verði og úrvali í ostaborðum íslenzkra verzlana.“

Þá segir að Jón Gunnarsson, fyrrverandi formaður atvinnuveganefndar Alþingis, hafi beint því til nefndarinnar að hún taki málið upp og flytji frumvarp til að leiðrétta þennan ágalla á löggjöfinni.