Ummæli Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra um að á tímum hraðrar efnahagsuppsveiflu væri ekki brýnasta verkefni stjórnvalda að fara í almennar skattalækkanir hafa farið illa í marga. Hafa hvort tveggja Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð gagnrýnt ummæli Bjarna sem féllu á Skattadegi Deloitte, Viðskiptaráðs og SA sem haldinn var í gær.

Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir í nýrri grein á vef samtakanna þvert á móti það vera brýnast að lækka skatta í fyrirsögn greinar sinnar.

Segir Halldór afstöðu fjármálaráðherra dapurlega, því heldur eigi að skapa rými til lækkunar skatta einmitt á toppi hagsveiflunnar, enda auðveldi það fólki að greiða niður húsnæðislán og spara til mögru áranna. „Enn og aftur virðast stjórnmálamenn telja að fjármunum landsmanna sé betur borgið í þeirra umsjón en hjá þeim sem afla þeirra,“ segir Halldór.

„Ríki og sveitarfélög hafa stundað þensluhvetjandi fjármálastefnu síðastliðin ár, skatttekjur hafa þanist út í miklum uppgangi í efnahagslífinu en útgjöld hins opinbera hafa aukist jafnharðan.“

Halldór bendir á að 45 af hverjum 100 krónum sem verði til í efnahagslífinu sé ráðstafað af hinu opinbera sem þýði að nánast hvergi í OECD ríkjunum hafi hið opinbera hærri skatttekjur en hér á landi. „Villutrúin er að auknar ráðstöfunartekjur fyrirtækja og heimila hvetji til þenslu en að fjármunir til eyðslu ríkis og sveitarfélaga hafi ekki slík áhrif,“ segir Halldór.

„Að halda áfram á sömu braut mun óhjákvæmilega kalla á sársaukafullan niðurskurð þegar sömu tekjustofnar dragast saman í næstu niðursveiflu. Rétt‘upp hönd sá sem trúir því að í niðursveiflunni skapist dauðafæri til skattalækkana.“

Helmingun hagvaxtar sterk vísbending um að toppnum sé náð

Konráð S. Guðjónsson hagfræðingur Viðskiptaráðs tekur í sama streng og Halldór Benjamín. Segir hann að í ljósi þess að sterkar vísbendingar séu fyrir því að íslenska hagkerfið sé komið yfir topp hagsveiflunnar ættu skattalækkanir einmitt að færast framar í forgangsröðina.

„Sem dæmi þá gerir Seðlabankinn ráð fyrir að hagvöxtur hafi verið 3,7% í fyrra, eða um helmingi minni en árið 2016, og að það hægi á honum á næstu árum. Aðrar spár eru af svipuðum meiði,“ bendir Konráð á í aðsendri grein á Vísi .

„Ef ekki er tími til að huga að skattalækkunum þegar horfur eru á rólegri tímum í hagkerfinu er erfitt að sjá hvenær réttur tími er fyrir lækkanir á einstaka sköttum.“

Konráð nefnir, eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um , að erlend kortavelta dróst saman um 5% milli ára síðustu tvo mánuði síðasta árs sem sé í fyrsta sinn í 7 ár sem þar mælist samdráttur, hægt hafi á fjölgun starfa sem og fjölgun ferðamanna.

„Byrjum á hinum augljósu skrefum og göngum í lækkun tryggingargjaldsins ásamt því að endurskoða stofn fjármagnstekjuskatts, sem Viðskiptaráð hefur margbent á, að er íþyngjandi hér á landi í alþjóðlegum samanburði, ef tekið er mið af raunávöxtun.“