Undanfarið hefur verið fjallað um að langtímaávöxtun frjálsa sé ein sú lakasta á Íslandi. Þetta kom fram í skýrslu frá fyrirtækinu Verdicta. Gagnrýnt hefur verið að Frjálsi hafi auglýst að hann hafi hlotið 16 verðlaun frá árinu 2015 í ljósi niðurstaða skýrslunnar. Í tilefni af skýrslunni hefur Arion banki sent frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu.

„Í skýrslu Verdicta, um 20 ára raunávöxtun samtryggingardeilda lífeyrissjóða, sem boðin hefur verið til sölu að undanförnu, eru birtar tölur um ávöxtun samtryggingardeildar Frjálsa lífeyrissjóðsins. Þessar ávöxtunartölur koma ekki heim og saman við útreikninga sem gerðir eru í samræmi við reglur Fjármálaeftirlitsins um hvernig reikna skuli raunávöxtun lífeyrissjóða. Óskað hefur verið eftir upplýsingum um forsendur útreikninga sem skýrsluhöfundar nota.

Frjálsi hefur rekið samtryggingardeild frá 1.júlí 1999 eða í tæp 18 ár af þeim 20 sem til skoðunar eru í skýrslu Verdicta. Saga Frjálsa nær aftur til ársins 1978 þegar séreignardeild sjóðsins var stofnuð en þeir sem greiða í samtryggingardeild Frjálsa greiða jafnframt hluta skylduiðgjalds síns í séreignardeild sjóðsins. Samkvæmt reglum Fjármálaeftirlitsins um hvernig reikna skuli raunávöxtun lífeyrissjóða er raunávöxtun samtryggingardeildar Frjálsa 3,15%. Sá útreikningur er fenginn að teknu tilliti til breytinga á mati eigna sjóðsins sem gerð er ítarlega grein fyrir í ársreikningi 2016 og með ávöxtunartölum séreignardeildar Frjálsa fyrstu þrjú ár tímabilsins. Ef öll skuldabréf Frjálsa eru reiknuð á markaðsvirði, eins og heimilt er að gera en Frjálsi gerir ekki, er raunávöxtunin 3,36%. Þessar tölur hafa verið staðfestar af endurskoðanda Frjálsa. Í skýrslu Verdicta kemur fram að raunaávöxtunin sé 2,41%. Á þessu er verulegur óútskýrður munur sem skiptir máli í mati sem nær yfir 20 ára skeið.

Umrædd skýrsla nær einvörðungu til samtryggingardeilda lífeyrissjóða og ekki er tekið tillit til uppbyggingar sjóða líkt og Frjálsa þar sem sjóðfélagar greiða skylduiðgjald sitt bæði í séreignar- og samtryggingardeild. Í mati á árangri lífeyrissjóða við að ávaxta fé sjóðfélaga er rétt að líta til ávöxtunar heildariðgjaldsins sem fer bæði í samtryggingar- og séreignardeild. Það sem skiptir máli fyrir sjóðfélaga er hvaða lífeyri þeir fá á endanum fyrir þau iðgjöld sem greidd eru til lífeyrissjóðsins. Samanburð á slíku vantar algerlega í úttektina, þ.e. að taka tillit til heildargreiðslu skylduiðgjalds sem er ráðstafað í séreignardeild og í samtryggingardeild.

Frjálsi starfar í fimm deildum og er sá lífeyrissjóður á Íslandi sem býður sjóðfélögum að ráðstafa einu hæsta hlutfalli af skylduiðgjaldi sínu í séreignarsjóð, eða frá 72-78% af 12-15,5% iðgjaldi. Eignir sjóðfélaga í séreignardeildum Frjálsa eru um 70% af heildareignum sjóðsins og eignir sjóðfélaga í tryggingadeild 30%. Þetta þýðir að hver sjóðfélagi á að meðaltali lífeyrissparnað sinn í Frjálsa í séreign og samtryggingu í sömu hlutföllum. Sjóðfélagar Frjálsa geta í raun valið um fjölbreyttar leiðir til að stýra áhættunni sem þeir taka með ávöxtun síns skylduiðgjalds. Ef Frjálsi 1, sem er stærsta og fjölmennasta séreignarleiðin, er tekin sem dæmi er raunávöxtun sjóðfélaga síðustu 20 ár 3,62%, til 25 ára 4,38% og til 30 ára 4,81%.“